Stækkun Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 13:45:47 (652)

2001-10-17 13:45:47# 127. lþ. 13.1 fundur 82. mál: #A stækkun Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessi svör. Mér finnst að við verðum að staldra svolítið við það að við erum núna að taka afleiðingunum af því að útflytjendur hafa ekki sótt inn á svæðið að sama marki og Norðmenn hafa gert. Einnig kom fram í máli utanrrn. að litlir peningar hafi verið til þessara verkefna. Ég skil það svo að hann sé þá að ræða um markaðssókn og stuðning stjórnvalda við að byggja upp markaði á þessu svæði. Þá er spurningin: Er hægt að gera eitthvað héðan af eða erum við búin að missa af tækifærinu?

Ráðherra sagði jafnframt að við ættum á hættu að verða verr sett og að það kæmi upp ákveðin staða ef öll löndin taka upp sameiginlega evrópska mynt. Ég hef mikinn áhuga á því að við reynum að átta okkur á hvað það þýði fyrir Ísland ef önnur lönd Evrópu taka upp sameiginlega mynt. Ég velti því líka fyrir mér vegna þess hve miklar breytingar hafa orðið hjá Evrópusambandinu --- ýmis nýmæli hafa verið tekin upp hjá stofnunum sambandsins, þ.e. aukin áhrif og sömuleiðis aukið löggjafarvald --- hvað það hafi að segja fyrir okkur. Til dæmis vil ég minna á að nýverið sá dómsmrh. sig knúna til að mótmæla harðlega áformum um aðgerðir Evrópusambandsins til að berjast gegn hryðjuverkamönnum. Það mál snerti Schengen-samstarfið, en átti að halda utan sameiginlegs vettvangs Schengen-ríkjanna. Er það eitt af því sem blasir við hjá okkur að þrátt fyrir að við hugsanlega fáum endurskoðun á EES-samningnum séu þvílíkar breytingar orðnar að við ýtumst út fyrir og jafnvel að það hafi áhrif á hvernig samningurinn stendur gagnvart stjórnarskrá okkar?