Endurskoðun á EES-samningnum

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:04:06 (659)

2001-10-17 14:04:06# 127. lþ. 13.2 fundur 83. mál: #A endurskoðun á EES-samningnum# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram að ég á ekki við nein vandamál að stríða gagnvart ríkisstjórn Íslands í þessum máli. Ég vinn þetta verk í fullu umboði hennar og fer með þessi mál. Ég hef haft frumkvæði að umræðu um þessi mál innan EFTA-landanna og gerði það á fundi í apríl sl. með Þorbirni Jagland. Það hefur verið unnið stöðugt að þessu máli síðan og það verður gert áfram.

Það er mikilvægt að fá úr því skorið hversu miklar lagfæringar við getum fengið. Þá vitum við a.m.k. hvar við stöndum. Því skal þó ekki neitað að þetta er ekkert létt. Menn koma ekki hlaupandi til okkar til að óska eftir því að aðstoða við að rétta okkar hlut.

Ég get tekið það sem dæmi að við höfum barist fyrir því í mörg ár að komast inn á svokallaða European Conference eða Evrópuráðstefnu um framtíð Evrópu. Þangað hefur umsóknarríkjum alltaf verið boðið. Þar er verið að ræða mál sem varða hagsmuni Íslands. Þar er verið að ræða mál sem varða framtíð Íslands. Í framhaldi af viðræðum sem ég átti um þetta mál við utanrrh. Belgíu á Íslandi í ágúst, hefur Íslandi og öðrum EFTA-löndum nú í fyrsta skipti borist boð um að þeim sé boðin þátttaka í þessari ráðstefnu nk. laugardag. Að sjálfsögðu munum við þiggja það þó að við höfum ekki verið sérstaklega undir það búnir þar sem þetta boð barst fyrir nokkrum dögum. Það hefur tekið mörg ár að fá að vera með til þess að ræða þessi mál. Það er ekki svo að þar séu teknar miklar ákvarðanir en það er þó strax til bóta að fá að ræða ýmis mál sem varða hagsmunamál Íslands. Hins vegar getur jafnvel tekið mörg ár að ná því fram. Þannig er þetta og það er mikilvægt að hv. alþm. geri sér grein fyrir því að staða okkar er ekki alltaf mjög góð í þessum efnum.