Fjölskyldustefna utanríkisþjónustunnar

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:15:18 (663)

2001-10-17 14:15:18# 127. lþ. 13.3 fundur 113. mál: #A fjölskyldustefna utanríkisþjónustunnar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hann þurfti reyndar að gefa svolítið í á köflum þannig að erfitt var að fylgja honum eftir. Hins vegar er einna mikilvægast, ef horft er til stöðu starfsmanna ráðuneyta, að fjölskyldustefna utanríkisþjónustunnar sé í mjög góðu lagi.

Við þekkjum öll dæmi þess, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom hér inn á, að í flestum tilvikum eru það konurnar sem eru í makahlutverkinu. Þegar þær láta af störfum hér heima til að fylgja eiginmanni eftir til starfa erlendis þá er ekki eins og þær verði atvinnulausar eða fari eingöngu til að sinna fjölskyldunni. Hlutverk makanna á erlendri grund er afar mikilvægt og þær eru nánast í fullri vinnu hjá utanríkisþjónustunni. Þess vegna ættu þær auðvitað að vera þar á launum en alla vega er algert lágmark að viðkomandi ávinni sér full lífeyrisréttindi. Þegar heim er komið þá er, eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan, oft erfitt fyrir makana að fá vinnu. Fyrir það fyrsta er ekki vitað hve lengi er dvalið heima og síðan er ekki alltaf hægt að ganga að þeim störfum sem látið var af þegar flutt var til útlanda. Þess vegna skiptir þetta afar miklu máli.

Í ágætri greinargerð sem starfsmenn hæstv. ráðherra unnu og tillögum um fjölskyldustefnu utanríkisþjónustunnar er m.a. lagt til að stofnað verði sérstakt fjölskylduráð utanríkisþjónustunnar þar sem félag maka íslenskra erindreka ætti fulltrúa. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er slíkt fjölskylduráð starfandi?