Nýtt byggðakort ESA á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:20:15 (665)

2001-10-17 14:20:15# 127. lþ. 13.10 fundur 121. mál: #A nýtt byggðakort ESA á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Suðurnesjamenn fréttu það í Morgunblaðinu í lok júlímánaðar sl. að þeir væru komnir út af byggðakorti ESA. Það hafði verið samþykkt af ríkisstjórninni að tillögu hæstv. iðn.- og viðskrh. 25. júní sl. Nokkrum dögum eftir þessa frétt Morgunblaðsins eða 8. ágúst tók nýtt byggðakort gildi samkvæmt ákvörðun ESA og í samræmi við vilja hæstv. iðn.- og viðskrh. Þessi frétt kom okkur Suðurnesjamönnum mjög á óvart, þó ekki endilega að einhver breyting stæði til heldur sú staðreynd að hæstv. ráðherra hefði ekki séð ástæðu til, á undirbúningstíma sem var mjög langur, að hafa samband við sveitarstjórnir á Suðurnesjum um fyrirætlanir sínar og gefa þeim kost á andmælum.

Allt frá því að byggðamál voru færð frá Alþingi beint undir iðn.- og viðskrn. hefur heyrst af þeim áhuga ráðuneytisins að minnka það svæði sem Byggðastofnun þjónaði. Ákvörðun hæstv. ráðherra er að mörgu leyti mjög undarleg þegar litið er til annarra sveitarfélaga í kringum höfuðborgina sem sum hver eru nær borginni en byggðarlög á Suðurnesjum. Þar má til taka Hveragerði og Akranes, en 45 km eru frá höfuðborginni til Hveragerðis og 49 km til Akraness. Ef við berum svo saman byggðarlög á Suðurnesjum við þetta þá eru 55 km til Sandgerðis og sama fjarlægð til Garðs, en bæði þessi sveitarfélög eru á Suðurnesjum.

Akraneskaupstaður átti að falla út samkvæmt tillögu ESA en því var breytt af iðnrh. af einhverjum ástæðum. Ég vil leyfa mér að mótmæla harðlega því tómlæti sem sveitarfélögum á Suðurnesjum hefur verið sýnt í þessu máli af hálfu hæstv. iðn.- og viðskrh. Suðurnesjamenn sitja uppi með þessa ákvörðun. Það verður að teljast lágmark að þeir sem hafa átt nokkur samskipti við Byggðastofnun viti hvaða áhrif svo mikil breyting hefur. Ætlast hefði mátt til þess að ráðuneytið hefði svör við því á hreinu strax og ákvörðun þeirra lá fyrir. Því er þó ekki að heilsa og svör til sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum eru mjög rýr. Það eina sem fengist hefur svar við er að ríkisstyrkir fáist ekki en glufa sé ef um landbúnað og sjávarútveg er að ræða því reglur ESA ná ekki til þess.

Þar sem þetta er alls ekki fullnægjandi, herra forseti, verður að spyrja eftirfarandi spurninga:

1. Hvaða áhrif mun nýtt byggðakort ESA hafa á aukningu hlutafjár í Eignarhaldsfélagi Suðurnesja í samræmi við byggðaáætlun?

2. Hvaða áhrif mun það hafa á þátttöku Byggðastofnunar í rekstri Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar samkvæmt samningi?

3. Hvaða áhrif mun það hafa á þjónustu Byggðastofnunar á Suðurnesjum að öðru leyti?