Nýtt byggðakort ESA á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:23:18 (666)

2001-10-17 14:23:18# 127. lþ. 13.10 fundur 121. mál: #A nýtt byggðakort ESA á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:23]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir þann skæting sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda ætla ég að svara þessu málefnalega.

Samkvæmt reglum EES-samningsins eru ríkisstyrkir almennt óheimilir. Frá þessu eru nokkrar undantekningar, þar á meðal er heimilt að veita byggðastyrki með vissum skilyrðum. Forsendur fyrir því að heimilt sé að veita byggðastyrki eru að fyrir liggi sambyggt byggðakort. Slíkt kort afmarkar þau svæði þar sem slíkir styrkir eru heimilir. Á grundvelli samþykkts byggðakorts þarf að tilkynna ESA um styrkjaáætlanir eða styrki til einstakra verkefna. Á vegum Byggðastofnunar er nú unnið að því að tilkynna alla þá starfsemi Byggðastofnunar sem kann að falla undir þessar reglur.

Rétt er að benda á að styrkir til sjávarútvegs og landbúnaðar falla ekki undir reglur EES-samningsins og því hefur byggðakortið engin áhrif á stuðningsaðgerðir stjórnvalda hvað þessar atvinnugreinar varðar.

Þá er í gildi svokölluð minniháttarregla sem hefur það í för með sér að einstakir styrkir sem eru undir 100 þús. ECU eða rúmlega 9 millj. íslenskra króna eru heimilir.

Svör við spurningum hv. þm. eru:

1. Eins og ég sagði áðan er Byggðastofnun að vinna að tilkynningu til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem m.a. verður gerð grein fyrir framlögum stofnunarinnar til starfsemi eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni í samræmi við gildandi byggðaáætlun 1999--2001. Á þessari stundu er því ekki hægt að segja til um með fullri vissu hvort þessi framlög verða metin sem byggðastyrkir. Ég hef áður sagt að það kæmi mér á óvart ef Eftirlitsstofnunin kæmist að þeirri niðurstöðu að um óheimila styrki væri að ræða. Það fer þó væntanlega eftir þeirri fjárfestingarstefnu sem rekin er af einstökum félögum hvaða augum starfsemi þeirra verður litin. Ég vænti þess að þau geri eðlilega ávöxtunarkröfu.

2. Ég vísa til þess sem ég sagði áðan, að Byggðastofnun er að vinna að tilkynningu til Eftirlitsstofnunar EFTA um alla þá starfsemi stofnunarinnar sem kann að flokkast undir ríkisstyrki. Ég á ekki von á að ESA komist að þeirri niðurstöðu að Byggðastofnun verði óheimilt að veita fjármagn til starfsemi atvinnuþróunarfélaganna. Félögin verða að sjálfsögðu að setja sér reglur um þann stuðning sem þau geta veitt einstökum aðilum þannig að starfsemi þeirra hafi ekki neikvæð áhrif á samkeppni sjálfstætt starfandi ráðgjafa og þjónustuaðila. Þetta sjónarmið er alveg óháð hinu nýja byggðakorti. Jafnframt er þess að geta að atvinnuþróunarfélögin gegna mun almennara hlutverki fyrir sín svæði en aðstoð við einstaka aðila.

3. Eins og þjónustu Byggðastofnunar hefur verið háttað hingað til þá á ég ekki von á því að hið nýja byggðakort hafi áhrif svo nokkru nemi á starfsemi á svæðinu. Ég verð þó að setja þann fyrirvara að ESA á eftir að leggja mat á ríkisstyrkjaþáttinn í starfsemi Byggðastofnunar. Þess vegna væri óvarlegt af mér að fullyrða neitt fyrr en sú niðurstaða liggur fyrir.

Vegna orða hv. þm. vil ég segja að ráðuneytið lagði áherslu á að byggðakortið væri skilgreint samkvæmt kjördæmum. Á það var ekki fallist af ESA heldur var þess krafist að horft yrði til sveitarfélaga í þessu sambandi og að sveitarfélögin á Reykjanesi og Akranesi féllu utan byggðakortsins. Rökin voru þau að þarna væri um eitt atvinnusvæði að ræða. Við vissum reyndar af því að þegar síðasta byggðakort var samþykkt þá taldi ESA að Reykjanes ætti ekki að vera inni á byggðakortinu en féllust á að svo yrði áfram vegna þess að þá var mjög slæmt atvinnuástand á Reykjanesi sem, guði sé lof, er ekki nú.

Hvað varðar Akranes og það svæði þá féllust þeir á að að svæði væri tilgreint innan byggðakorts vegna þess að það er dýrt að ferðast á milli þess svæðis og höfuðborgarsvæðisins. Ekki var talið hægt að neita því að það væri hátt hlutfall af launum verkamanns að fara um göngin. Þess vegna varð þetta niðurstaðan hvað varðar það svæði. Hins vegar féllust þeir ekki á að Reykjanes félli innan byggðasvæðisins. Rökin voru m.a. þau að þar væri atvinnuástand gott og þeir hefðu ætlað sér, þegar það byggðakort var samþykkt sem áður lá fyrir, að Reykjanes félli utan svæðisins.