Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:44:51 (673)

2001-10-17 14:44:51# 127. lþ. 13.4 fundur 63. mál: #A Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# fsp. (til munnl.) frá félmrh., BH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:44]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég átti þess kost ásamt fleiri hv. þm. að heimsækja þessa merku stofnun, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, fyrir skömmu. Þar kom berlega í ljós hversu gríðarlega mikilvægt og krefjandi starf er þar unnið.

Herra forseti. Það er líka ljóst hversu viðkvæmt þetta starf er og það versta sem þjónusta á borð við þessa býr við er óvissa. Sú er þó raunin nú vegna þess að fjármagn skortir til að þjóna þörfum þeim sem til staðar eru úti í samfélaginu og á meðan bíður fjöldi einstaklinga eftir greiningu og meðferð.

Herra forseti. Ég tel að þær fjárhæðir sem upp á vantar til að hægt sé að sinna þeim einstaklingum sem bíða, eða a.m.k. að draga úr þörfinni, séu það lágar að til skammar sé að láta þær vanta. Til þess eru afleiðingar af biðinni allt of alvarlegar og líklega veldur biðtíminn enn meiri kostnaði þegar upp er staðið því að vanræksla á meðferð og greiningu kostar líka sitt.