Réttarstaða erlendra kvenna

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 14:55:22 (679)

2001-10-17 14:55:22# 127. lþ. 13.5 fundur 70. mál: #A réttarstaða erlendra kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[14:55]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Í framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna er þetta verkefni tiltekið. Í 3. gr. er tekið fram að félmrn. muni í samvinnu við Starfsmannafélagið Sókn kanna aðstöðu, réttindi og skyldur aðfluttra kvenna sem koma hingað til lands til að vinna á einkaheimilum. Í ráðuneytinu starfar nefnd sem á að kanna aðstæður erlends vinnuafls hér á landi og hún mun m.a. kanna aðstæður þessara kvenna, sem og annarra erlendra ríkisborgara sem eru hér á vinnumarkaði. Nefndinni er ætlað að skila tillögum til úrbóta fyrir 1. apríl nk. Í þessari nefnd eiga bæði sæti fulltrúar frá ASÍ og Starfsgreinasambandinu.

Frá því í sumar er það Starfsgreinasambandið sem fer yfir ráðningarsamninga og veitir umsögn vegna atvinnuleyfa þeirra sem starfa á einkaheimilum. Þessi nefnd mun án efa kanna stöðu þessara einstaklinga og athuga hvort eitthvað er athugavert við aðstæður þeirra. Fulltrúi Starfsgreinasambandsins mun koma með upplýsingar inn í nefndina sem verður unnið úr.

Þá ber að geta þess að í ráðuneytinu hefur einnig farið fram heildarendurskoðun laga um atvinnuréttindi útlendinga og mun það frv. verða lagt fram fljótlega í þinginu. Meðal atriða sem ættu að bæta réttarstöðu þessara einstaklinga eru m.a. öruggari tryggingar fyrstu sex mánuðina sem dvalið er í landinu, aukin trygging á að þeir sem koma hingað fái upplýsingar um íslenskukennslu, samfélagsfræðslu, réttindi sín og skyldur.

Það skal tekið fram að erlendar konur sem koma hingað til lands að vinna á einkaheimilum og eru utan EES-svæðisins þurfa að sækja um atvinnuleyfi á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994. Þá þarf m.a. að liggja fyrir undirskrifaður ráðningarsamningur til tiltekins tíma eða verkefni sem tryggi erlendum starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn.

Frá sl. sumri er það Starfsgreinasambandið sem veitir umsögn um umsókn um atvinnuleyfi, en það er veitt af Vinnumálastofnun. Sú vinnuregla hefur verið viðhöfð um nokkurn tíma að veita leyfið einungis til 6 mánaða í fyrstu. Ef um framlengingu er að ræða þá er kallað eftir upplýsingum um greidd laun, greiðslur opinberra gjalda, greiðslur í lífeyrissjóð og tryggingar. Að fengnum þessum upplýsingum er tekin ákvörðun um hvort veita eigi að framlengingu á leyfi.

Á þessu ári hafa einungis 24 ný atvinnuleyfi vegna erlendra kvenna sem vinna á einkaheimilum verið veitt þannig að það er ekki um stóran hóp að ræða. Vinnumálastofnun hefur í nokkrum tilfellum samþykkt annað atvinnuleyfi til einstaklinga sem hafa haft atvinnuleyfi til að vinna á einkaheimilum þannig að þeir geti unnið hlutastarf utan þess heimilis sem þeir eru ráðnir á. Þetta hefur þótt bæta réttarstöðu þeirra og koma í veg fyrir einangrun þeirra. Áður var það ASÍ en nú veitir Starfsgreinasambandið þessum konum góða aðstoð ef eitthvað hefur bjátað á.

Spurt er hvort könnunin nái einnig til þeirra sem starfa á heimilum fulltrúa erlendra ríkja. Það gilda allt önnur sjónarmið varðandi þá sem starfa á heimilum fulltrúa erlendra ríkja hér á landi. Í fyrsta lagi er í c-lið 13. gr. laganna um atvinnuréttindi útlendinga ákvæði þar sem útlendingar í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja eru undanþegnir því að þurfa að sækja um atvinnuleyfi. Í öðru lagi eru þeir sem ráðnir eru í sendiráð starfsmenn þess ríkis sem viðkomandi sendiráð tekur til. Þeir starfsmenn þurfa einungis dvalarleyfi hér á landi samkvæmt lögum um eftirlit með útlendingum.

Spurt er um hvort kvartanir eða kærur hafi borist frá erlendum konum sem vinna á einkaheimilum. ASÍ var umsagnaraðili til langs tíma. En í sumar tók Starfsgreinasambandið við. Samkvæmt upplýsingum frá ASÍ var ekki mikið um að erlendar konur sem unnu á einkaheimilum leituðu til þeirra með kvartanir eða kærur. Það var aðeins eitt mál sem kom upp fyrir tilstilli þriðja aðila en það var leyst farsællega á sínum tíma samkvæmt upplýsingum ASÍ. Samkvæmt upplýsingum frá Starfsgreinasambandinu er ekki mikið um að leitað sé til þeirra en það ber náttúrlega að hafa í huga að hér er um tiltölulega fáa einstaklinga að ræða.