Réttarstaða erlendra kvenna

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:01:10 (681)

2001-10-17 15:01:10# 127. lþ. 13.5 fundur 70. mál: #A réttarstaða erlendra kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að það sé mikilvægt að koma á þessari umræðu hér heima. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir minntist á hluti eins og mansal og annað sem við höfum rætt um sem einnig hefur verið til umræðu í Evrópu.

Það má kannski segja að það sé tímabært að kíkja undir pottlokið í þessum málum. Að vísu höfum við ekki eins langa vinnukonuhefð og annars staðar í Evrópu. Við erum því ekki að tala um eins stóran hóp og kannski er þeim mun auðveldara fyrir okkur að skoða hann og fylgjast með honum þannig að koma megi í veg fyrir nokkra einustu mismunun eða misnotkun á íslenskum heimilum.