Réttarstaða erlendra kvenna

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:03:14 (683)

2001-10-17 15:03:14# 127. lþ. 13.5 fundur 70. mál: #A réttarstaða erlendra kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vitnaði áðan til skýrslu sem samþykkt var í Evrópuráðinu og þar með tilmæli til aðildarríkja Evrópuráðsins um að taka á stöðu þeirra kvenna sem koma frá útlöndum og vinna inni á heimilum. Vegna þess að ekki hafa gilt neinar reglur eða einungis verið slakar reglur í mörgum aðildarríkjum Evrópuráðsins um þetta mál var það tekið upp sem vandamál. Það er tekið upp sem vandamál vegna þess að mjög stór hópur kvenna, sá hópur skiptir þúsundum samkvæmt þessari skýrslu, verður fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi í þessu svokallaða heimilisþrælahaldi. Með leyfi virðulegs forseta, stendur hér:

,,... einnig er nefnd sem falið hefur verið að kanna aðstæður erlends vinnuafls og útlendinga með dvalarleyfi hér á landi að hefja störf. Nefndinni er jafnframt falið að skila tillögum um úrbætur ...

Má af því sjálfu leiða að aðstæður þeirra sem vinna á einkaheimilum með atvinnuleyfi verða sérstaklega skoðaðar því þar er nánast eingöngu um konur að ræða.``

Þarna er ekki, virðulegi forseti, vitnað í ræðu hæstv. ráðherra á þessu þingi. Þessi ræða var flutt fyrir ári síðan, 1. nóvember fyrir ári síðan. Síðan þá hefur þessi nefnd, að því er virðist, ekki gert mjög mikið og samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk í morgun þá sofnaði hún eða lagðist í dvala síðla vetrar þegar þáv. formaður nefndarinnar, Sigríður Lillý Baldursdóttir, lét af störfum. Nefndin er núna rétt nýtekin til starfa. Það er liðið ár frá því að hæstv. ráðherra sagði að þessi mál yrðu könnuð. En nefndin er enn á byrjunarpunkti hvað þessi mál varðar.

Þetta eru engin vinnubrögð. Að ég tali nú ekki um þá yfirlýsingu sem fram kemur í jafnréttisáætluninni sem ríkisstjórnin samþykkti. Þar var beinlínis lagt til að aðstæður þessara kvenna yrðu kannaðar sérstaklega. Það hefur ekki verið gert, ekki nokkur skapaður hlutur. Evrópuráðið hefur sent tilmæli og það verður sjálfsagt, eins og venjan er, ekkert gert með þau heldur.