Tillögur vegsvæðanefndar

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:24:47 (691)

2001-10-17 15:24:47# 127. lþ. 13.7 fundur 85. mál: #A tillögur vegsvæðanefndar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:24]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir að vekja máls á þessu. Lausaganga búfjár á vegum er mjög víðtækt vandamál og hefur haft í för með sér allt of mörg slys og hættur á slysum. Hún ógnar öryggi vegfarenda fyrir utan allan þann kostnað sem hlýst af slysum á fólki og skemmdum á farartækjum. Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra þarf að líta á þetta frá mörgum hliðum. Eitt er þó víst að reglur þurfa að vera samræmdar í þessum málum. Það gengur ekki að banna lausagöngu búfjár í einu sveitarfélagi en að í því næsta gildi ekki sömu reglur. Við eigum að gera allt sem við getum til að draga úr slysahættu því það gengur ekki lengur að hafa þetta í því horfi sem þetta er í dag. Og ef reistar eru girðingar þá verður að sjálfsögðu að halda þeim við. En það gengur ekki að það lendi á bóndanum ef Vegagerðin heldur ekki við þeim girðingum sem henni ber að halda við.