Stytting rjúpnaveiðitímans

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:45:18 (700)

2001-10-17 15:45:18# 127. lþ. 13.9 fundur 94. mál: #A stytting rjúpnaveiðitímans# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. umhvrh. fyrirspurn sem varðar það hvort til greina hefði komið að stytta rjúpnaveiðitímann og hefja hann t.d. ekki fyrr en 1. nóv. í stað 15. okt. Það væri í því skyni að hlífa stofninum við óhóflegu veiðiálagi og ekki síður af umhverfisástæðum, til að draga úr hættu á akstri veiðimanna utan vega eða akstri á lélegum vegarslóðum. Ég lagði þessa fyrirspurn fram strax í byrjun þings og henni var dreift að ég best veit 2. eða 3. október. Mér urðu það því nokkur vonbrigði að hæstv. ráðherra skyldi ekki komast til að svara fyrirspurninni áður en rjúpnaveiðitíminn hófst 15. október. Það hefði verið betra að ræða þetta mál áður en sá tími gekk í garð.

Staðan er þannig, herra forseti, að rjúpnastofninn er í mikilli lægð. Hann er nálægt því að komast í sögulegt lágmark, er t.d. kominn niður undir það sem hann var á árunum 1992--1993 þegar hann var einna minnstur nú á seinni árum. Þetta ástand gildir eiginlega um allt land. Það er kannski á Austfjörðum sem hægt er að segja að stofninn sé í sæmilegu horfi. Veiðiálagið virðist fara vaxandi og dreifast meira um allt landið þannig að nú má heita að þungt veiðiálag sé að verða á öllu landinu strax í upphafi veiðitímans. Það er ekki lengur bundið við suðvesturhorn landsins eins og það var áður. Tækjakostur manna til veiðanna hefur stórbatnað, torfærubifreiðir gera mönnum kleift að fara langt inn á hálendið og keyra vegarslóða sem áður voru lokaðir o.s.frv.

Staðreyndin er sú að bæði bændur og aðrir landeigendur, sveitarstjórnir, Vegagerðin og lögreglan ráða æ verr við það ástand sem skapast oft fyrstu daga rjúpnaveiðitímans. Ég held að það verði að segja það eins og er, herra forseti, að í upphafi þessa veiðitíma hefur nánast ríkt ófremdarástand, t.d. á norðausturhorni landsins. Það er tæpast hægt að kalla það annað þegar þannig er komið að lögregla og björgunarsveit, t.d. á Þórshöfn, hefur verið nánast í samfelldu útkalli síðan rjúpnaveiðitíminn hófst við að leita að týndum skyttum, við að draga bíla upp úr vegum þar sem þeir eru fastir og bjarga mönnum til byggða.

Ég vil taka það fram að auðvitað er allur þorri veiðimanna til fyrirmyndar. En frá því eru því miður undantekningar og er veruleg ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig þetta mál er að þróast. Ég hefði talið --- það er mat margra sem vel til þekkja t.d. bænda og sveitarstjórna á norðausturhorni landsins --- að það væri mjög vænleg aðgerð að stytta rjúpnaveiðitímann, þess vegna bæði í upphafi og í lokin, til verndar stofninum. Það mundi jafnframt hlífa landinu við þessum viðkvæma tíma á haustin þegar bleytur eru oft miklar og land og vegir þola illa átroðning og umferð. Þess vegna hefði ég talið að það hefði legið vel við fyrir hæstv. umhvrh., bæði frá verndunarsjónarmiði með tilliti til stofnsins og líka landsins, að taka til rækilegrar skoðunar að gera þarna ráðstafanir og láta þetta ástand ekki viðgangast óbreytt ár eftir ár.