Stytting rjúpnaveiðitímans

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 15:48:40 (701)

2001-10-17 15:48:40# 127. lþ. 13.9 fundur 94. mál: #A stytting rjúpnaveiðitímans# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Spurningar hv. þm. lúta eiginlega að tvennu, þ.e. í fyrsta lagi að utanvegaakstri og síðan að óhóflegu veiðiálagi.

Varðandi það að stytta veiðitímann vegna utanvegaaksturs þá vil ég koma því á framfæri og það er bannað samkvæmt náttúruverndarlögum að aka utan vega og merktra vegarslóða við veiðar sem og í öðrum tilgangi. Séu vegarslóðar í það slæmu ástandi að varhugavert sé að hleypa umferð á þá er það hlutverk Vegagerðarinnar og lögreglu að loka þeim og lögreglu ber að fylgjast með því að akstur utan vega eigi sér ekki stað.

Það er rétt sem hér er bent á að því fylgir vandi er veiðimenn sækja til veiða strax í upphafi veiðitímans. Vandinn felst m.a. að því að skilgreina hvað eru vegarslóðar og hvað eru vegir og hverju eigi að halda opnu og hverju eigi að loka.

Landmælingar Íslands eru í samstarfi við Vegagerðina að kortleggja um þessar mundir allt hálendið, þ.e. hvað eru vegir og hvað eru slóðar. Það er ein af forsendum þess sem við munum nota okkur í framtíðinni til að taka á þessum akstri. Það mun auðvelda okkur að loka með réttmætum hætti vegum og slóðum til að taka betur á því. Ég vil líka koma því á framfæri að ég er sannfærð um að í framtíðinni verður meira notast við þyrlur til að taka á þessum málum, myndatökur o.s.frv. þannig að veiðimenn freistist ekki til að fara út fyrir og skemma landið.

Varðandi það að stytta veiðitímann vegna óhóflegs veiði\-álags þá er mikilvægt að við skoðum afföll rjúpunnar, náttúruleg afföll. Rannsóknir sýna að náttúruleg afföll eru langmest í upphafi veiðitímans, m.a. vegna afráns, veðurs, fæðuframboðs og sjúkdóma. Það er ljóst að veiðimennirnir eru ekki einir orsök affallanna í rjúpnastofninum heldur er þetta samspil margra þátta. Til að rannsaka þetta vel ákváðum við að friða svæðið í kringum höfuðborgarsvæðið í þrjú ár fyrir veiðum og sú rannsókn gengur þokkalega.

Umhvrn. hefur ekki fengið neinar tillögur eða ábendingar um að sem stendur þurfi að grípa inn í til að stytta veiðitímann vegna óhóflegs veiðiálags, en það eru Náttúrufræðistofnun Íslands, veiðistjóri og ráðgjafarnefnd um villt dýr sem ráðleggja okkur í þessu sambandi.

Þurfi hins vegar að grípa til aðgerða í framtíðinni þá er brýnt að þau mál séu skoðuð fyrir fram þannig að menn þurfi ekki að taka ákvarðanir í skyndingu. Ég hef því sett niður nefnd til að skoða hvað sé hægt að gera ef hemja þarf veiðarnar. Það er búið að skipa nefnd en í henni eiga sæti Sigmar B. Hauksson, sem er formaður Skotveiðifélags Íslands, Arnór Sigfússon fuglafræðingur, Áki H. Jónsson veiðistjóri, Guðmundur H. Guðmundsson, fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands, Sigurður Á. Þráinsson fulltrúi umhvrn. og Sesselja Jónsdóttir fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga. Þessi nefnd er núna að skoða hvaða aðgerða sé hægt að grípa til ef þess gerist þörf. Svo er ekki í augnablikinu en það gæti komið til þess.

Það eru helst þrjár aðferðir sem hægt er að nota. Í fyrsta lagi er hægt að friða stór svæði til að hemja veiðarnar. Það er ekki mjög snjallt að margra mati, af því að þá færist veiðin til. Það er þó ekki útilokað. Í öðru lagi er hægt að stytta veiðitímann. Það gerði t.d. þáv. umhvrh. árið 1993, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hann stytti veiðitímann í lokin þannig að menn hættu 22. nóvember en ekki 22. desember. Veiðin færðist bara til, það var ekkert minna veitt.

Í þriðja lagi er hægt að banna sölu á villibráð í verslunum og á veitingastöðum. Það hefur verið reynt í Bretlandi og Bandaríkjunumm með góðum árangri en það er líka hægt að svindla á því. Menn hafa þó talið að þetta sé kannski besta leiðin. Talið er að 10% veiðimanna veiði helminginn af því sem veiðist af rjúpu og gæs og með þessari aðferð væri hægt að taka á þessum hálfatvinnumönnum sem gætu þá ekki selt bráðina eins auðveldlega og þeir geta í dag.

Skotveiðimenn hafa sjálfir rætt þessi mál. Þeir hafa gert skoðanakönnun í sínum hópi og niðurstaðan hjá þeim --- hún var kannski ekki mjög vísindaleg, ég þekki það ekki beint --- var að 73% þeirra vildu frekar banna sölu á bráðinni en stytta veiðitímann. Það voru einungis 27% sem vildu stytta veiðitímann.

Svar mitt er því að ég tel að það þurfi ekki að grípa til aðgerða núna. Við erum að skoða það faglega hvað unnt sé að gera ef á þarf að halda seinna meir.