2001-10-18 10:40:02# 127. lþ. 14.1 fundur 53. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 120/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 127. lþ.

[10:40]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér nauðsynlegt frv. sem ég styð eindregið. Á því að slík bótaábyrgð falli á þjóðina eru afskaplega litlar líkur, nánast hverfandi. En tjónið yrði svo gífurlegt --- við erum að tala um 50 milljarða á hverja flugvél, þ.e. 200 þús. kr. á hvern íbúa landsins, milljón á fimm manna fjölskyldu --- við erum að tala um þvílíkt tjón að það má ekki gerast. Ég lagði á það áherslu við 1. umr. að hæstv. ríkisstjórn hefði samband við önnur ríki, vinveitt ríki, t.d. Norðurlöndin sem við höfum gott samstarf við. Bara endurtryggingasamningur eða endurtryggingasamkomulag við Dani mundi minnka áhættuna niður í einn tuttugasta. Endurtryggingasamningur við öll Norðurlöndin sem er þeim líka í hag, sem minnkar líka áhættu þeirra, mundi minnka áhættuna niður í 1%. Ég skora því á hæstv. ríkisstjórn, hafi hún ekki þegar fengið slíkan endurtryggingasamning, að gera það nú þegar, að senda mann út af örkinni bara í hvelli til þess að ná slíkum samningi. Það er ekki gott fyrir 250 þús. manna þjóð að bera slíka áhættu. Ég vil því eindregið fara þess á leit að hæstv. ríkisstjórn komi á slíkum gagnkvæmum endurtryggingasamningi við aðrar ríkisstjórnir.