2001-10-18 10:44:57# 127. lþ. 14.1 fundur 53. mál: #A bótaábyrgð vegna tjóns af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 120/2001, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 127. lþ.

[10:44]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil þakka þingheimi fyrir þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið og þá samstöðu sem um það er orðin. Við skulum gera okkur grein fyrir því að hér er á ferðinni mikið alvörumál og Alþingi er hér að heimila ríkisvaldinu að gangast undir gríðarlega mikla ábyrgð. Vonandi reynir ekki á hana. Vonandi reynist hún óþörf.

Ég vil taka það fram vegna ummæla í umræðunni að enda þótt frv. með þeirri breytingu sem ráðgerð er geri ráð fyrir að það verði heimilt til áramóta að veita þessa ábyrgð þá munum við í ríkisstjórninni kappkosta að reyna að hafa þennan tíma sem stystan og gera það sem við getum til þess að þetta mál verði komið í eðlilegt horf með eðlilegum tryggingasamningum milli flugfélaganna og tryggingafélaga sem fyrst þannig að ríkið megi losna undan þessari ábyrgð svo skjótt sem verða má. Ef kostur er í millitíðinni að gera gagnkvæma endurtryggingasamninga við önnur ríki þá munum við skoða það. En eðlilegast, heppilegast og heilbrigðast er að greinin sjálf, flugreksturinn, finni lausn á tryggingamarkaðnum til að leysa þetta óvenjulega og afbrigðilega vandamál þar sem við eigum vissulega ekki annan kost en þann sem hér liggur fyrir.

Ég vildi að þetta kæmi fram og ég vil að það sé alveg ljóst, bæði þingheimi og þeim sem hlut eiga að máli á markaðnum, að við munum ekki framlengja þessa ábyrgð lengur en brýnasta þörf er á jafnvel þó að heimildin sé til áramóta.