Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 11:08:03 (716)

2001-10-18 11:08:03# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[11:08]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hér er alvarleg og mikil breyting í 6. gr. sem varðar 39. gr. laga um að tekið verði út ákvæði um að viðkomandi hjúkrunarheimili hafi heimild til að vísa máli sínu til gerðardóms ef ósætti er á milli ráðuneytis og viðkomandi stofnunar um ákvörðunartöku ráðuneytisins varðandi daggjöld. Ég tel að hér kveði við nokkuð nýjan tón frá því sem áður hefur verið. Vísað er til þess að hjúkrunarþyngd ein skuli ráða um ákvarðanir daggjalda en í núverandi vinnuferli ráðuneytisins er sagt að hjúkrunarþyngdin vegi 60% af heildardaggjöldum en 40% séu aðrir rekstrarlegir þættir og rekstrarlegt umhverfi. Er verið að breyta þessum ákvæðum þannig að hér skuli eingöngu hjúkrunarþyngdin tekin, vegin og metin, en ekki aðrir aðlægir rekstrarþættir hjúkrunarheimilanna?

Það er alvarlegt mál og hefur gerst í gegnum árin og áratugina að heilbrrn. hefur tekið einhliða ákvörðun um daggjöld án þess að daggjaldastofnun hafi nokkuð haft um það að segja. Nákvæmlega sami texti er hér í frv., um að þetta skuli gert í samráði við heilbrigðisstofnanir en það hefur aldrei verið gert. Hér er því verið að taka út ákvæði þá einu málsvörn sem hjúkrunarheimilin hafa haft til þessa, þ.e. að vísa máli til gerðardóms ef ósætti kemur upp á milli ráðuneytis og viðkomandi stofnunar. Mér sýnist að heldur halli á þessar stofnanir í málinu ef svo heldur fram sem horfir og 6. gr. þessa frv. verður samþykkt.