Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 11:13:22 (719)

2001-10-18 11:13:22# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[11:13]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. verður að meta hvað vindarnir eru ferskir. Ég held að það sé næstum því logn úti en ég þakka honum orð hans um þetta. Hins vegar vil ég undirstrika, og þetta veit hv. þm. því að hann er kunnugur þessum málum, að á vegum heilbrrn. hefur undanfarna mánuði farið mikil vinna í að greina stöðu þeirra stofnana sem sjá um öldrunarmálin. Það er mjög áríðandi að sú vinna fari fram. Mér er kunnugt um ýmsa erfiðleika sem sjálfseignarstofnanir eiga við að etja sem við þurfum að fara nánar yfir, t.d. hvernig þær eigi að standa að viðhaldi og uppbyggingu. Umhverfið er mjög breytt að þessu leyti. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að samstarf og miðlun upplýsinga og viðræður sem liggja til grundvallar ákvörðunum um daggjöld verði að fara fram.

Ég endurtek það sem ég sagði, að hjúkrunarþyngdin er náttúrlega það sem skiptir meginmáli í þessu. Þar er um mesta fjármuni að ræða, þ.e hvort hún er meiri eða minni, og það er RAI-matið sem liggur til grundvallar þar.