Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 11:15:27 (720)

2001-10-18 11:15:27# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[11:15]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Í gegnum tíðina hafa samningar við sjálfstætt starfandi lækna verið í höndum Tryggingastofnunar ríkisins annars vegar og samninganefndar lækna hins vegar. Svo gerðist það fyrir nokkrum árum, sennilega í tíð Sighvats Björgvinssonar sem heilbrrh., ef ég man rétt, að sett var reglugerð sem gerði læknum kleift að veita meðferð og gera aðgerðir á sjúkrahúsum og fá greitt samkvæmt samningi TR og Læknafélagsins. Þessi þáttur starfseminnar jókst síðan verulega í kjölfarið og fyrir nokkrum árum var tekin sú ákvörðun að færa tiltekið fjármagn frá Tryggingastofnun til sjúkrahúsanna, og sjúkrahúsin sjálf hefðu með höndum samninga við lækna um ferliverk.

Með þessu frv. sem við höfum nú fyrir framan okkur er í raun og veru verið að færa samningsgerð vegna ferliverka og starfsemi sjálfstætt starfandi lækna aftur í sama horf, hún er þá aftur á einni hendi. Þess vegna langar mig til að varpa fram spurningu til heilbrrh. vegna áhyggna sem komu fram á málþingi í tengslum við aðalfund Læknafélags Íslands sem haldinn var á laugardaginn var. Þar komu m.a. fram áhyggjur um að þessi skipan samningamála mundi hafa í för með sér mikið ójafnræði milli annars vegar greiðslna til lækna sem vinna ferliverk inni á sjúkrahúsi og hins vegar til þeirra sem vinna þessi störf utan sjúkrahúsanna, þ.e. í öðru tilvikinu væri ríki að semja við ríki og í hinu tilvikinu væri ríki að semja við sjálfstætt starfandi lækna.

Þess vegna langar mig til þess að varpa fram þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. hvort um verði að ræða eina samninganefnd um þessi störf utan og innan sjúkrahúsa, þ.e. hvort ein samninganefnd verði frá ríkinu og önnur frá læknum. Eða hvernig mun þessi breyting formgera sig þegar hún kemur til framkvæmda?