Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 11:19:03 (722)

2001-10-18 11:19:03# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[11:19]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi svör. Ég tel að þau séu mjög mikilvæg og ættu að slá á áhyggjur læknastéttarinnar.

Það var annað atriði sem mig langaði jafnframt að spyrja hæstv. ráðherra um. Mig langar að lesa eftirfarandi á bls. 4 í greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Sama gildir í þeim tilvikum sem sérhæfð starfsemi er þess eðlis að heppilegra er að hún fari fram á sjúkrahúsum eða hagkvæmara að hún sé á einum stað.`` Og síðan segir áfram: ,,Þá er nauðsynlegt vegna kennslu- og fræðahlutverks sjúkrahúsa að þar fari fram sem allra fjölbreyttust starfsemi. Þegar læknar eru í fullu starfi á sjúkrahúsi telja heilbrigðisyfirvöld æskilegra að þeim sé sköpuð aðstaða til að sinna ferliverkum inni á stofnuninni fremur en að þeir séu jafnframt með stofurekstur.``

Og þá langar mig að varpa fram spurningu til hæstv. ráðherra: Má skilja greinargerðina á þann veg að heilbrigðisyfirvöld muni í kjölfar þessa frv. færa störf eða verk í meira mæli inn á sjúkrahúsin en gert hefur verið? Á undanförnum árum hefur flutningur á störfum frekar verið frá sjúkrahúsunum í stofur úti í bæ, og þess vegna er mikilvæg spurning hvort þarna sé verið að nota þetta frv. til að færa störfin á ný inn á sjúkrahúsin. Eða munum við jafnvel í kjölfarið sjá fram á að ítarlegri skilgreining fari fram á þeirri starfsemi sem á og þarf að fara fram inni á sjúkrahúsunum og hvergi annars staðar og þannig verði betur skilgreint hvað það er sem hægt er að gera utan sjúkrahúsa, þ.e. aðgerðir eða meðferðir, þar sem ekki er þörf á sjúkrahússinnlögn?