Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 11:36:11 (728)

2001-10-18 11:36:11# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., KF
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[11:36]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Hér er til umræðu stjórnarfrv. um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar, lagt fram af hæstv. heilbr.- og trmrh.

Frv. felur m.a. í sér, eins og komið hefur fram, að sameina eigi samninganefndir þær sem semja við lækna um svokölluð ferliverk, hvort sem þau eru unnin innan sjúkrahúsa eða utan þeirra. Til þessa hefur ráðherra gert samninga við sjúkrahúsin um ferliverk og þar hefur ríkið reyndar verið að semja við ríkið, en samninganefnd Tryggingastofnunar ríkisins hefur samið við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um vinnu á stofum. Þessar tvær nefndir eða verkefni þeirra verða samkvæmt frv. sett til einnar nefndar og hlýtur það að vera ákvörðun stjórnvalda hvernig hagað er samningastarfi í þessari grein jafnt og öðrum. Í frv. er síðan tiltekið hvernig í nefndina skuli valið.

Ég dreg ekki dul á að ég hefði helst viljað sjá að Tryggingastofnun ríkisins væri falið að kaupa öll ferliverk innan og utan sjúkrahúsa. En ég get vel sætt mig við að þessu sé beint í þann farveg sem kemur fram í frv.

Í máli manna hér hefur komið fram að verulegar efasemdir eru meðal lækna um ýmis atriði í frv. og ályktaði aðalfundur Læknafélags Íslands um þær efasemdir um síðustu helgi.

Bent hefur verið á að heilbrigðisstarfsmenn eins og það er orðað, en aðallega er átt við lækna, hafi getað flutt sig á milli samninga eftir því hvor samningurinn hefur boðið þeim upp á betri kjör og þess vegna hafi reynst erfitt að halda utan um útgjöld vegna sérfræðiþjónustu. Reyndar verður maður að líta svo á að slíkt val geti verið jákvætt, sérstaklega þegar litið er til þess að flestir læknar hafa einungis við einn vinnuveitanda að semja, ólíkt því sem flestum öðrum stéttum stendur til boða. Ríkið er að jafnaði eini vinnuveitandinn og hjá sjálfstætt starfandi læknum er kostnaður greiddur fyrst og fremst af ríkinu, en að nokkrum hluta þó af sjúklingum.

Auðvitað eru heilbrigðisyfirvöld að reyna að ná utan um kostnað við heilbrigðisþjónustu og það skiptir alla landsmenn máli að vel sé staðið að því, að hún sé rekin á þann hagkvæmasta hátt sem hægt er og að hún sé faglega fyllilega sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.

Mér hefur fundist sú tilhneiging vera æ meira áberandi að til þess að ná utan um kostnað í þjónustunni sé millistjórnendum fjölgað og að stýriapparatið, stýrikerfið á stofnununum hafi bólgnað út. Maður fer að velta fyrir sér hvort ekki fari að koma að því að spara megi nokkuð í stjórnunarkostnaði með því að fela heilbrigðisstarfsmönnum, og þá á ég fyrst og fremst við lækna, meiri ábyrgð á þeirri vinnu sem þeir sinna. Þeir bera auðvitað faglega ábyrgð á sinni vinnu en ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög æskilegt að setja saman faglega ábyrgð og fjárhagslega ábyrgð og þá er ég að líta á þjónustu innan og utan sjúkrahúsa.

Mér finnst sem sagt að auka þurfi vægi lækna og að þeir eigi að fá að axla þá ábyrgð sem þeir eru hæfir til að gera. Engir eru eins færir um það og þeir vegna þess að mestallur kostnaður í heilbrigðisþjónustunni er ákvarðaður af læknum vegna þeirrar þjónustu sem þeir eru að veita sínum sjúklingum.

Mér finnst mikilvægast að gengið sé út frá þeirri grunnhugsun í heilbrigðisþjónustu við landsmenn að hún sé lagskipt, að hún skiptist með skýrum hætti í grunnþjónustu, sérfræðiþjónustu og sjúkrahúsþjónustu, og það kom fram í máli ráðherra áðan í andsvörum að hann hefði fullan skilning á þessu.

Ég tel því að alla þá þjónustu sem hægt sé að veita hjá heimilislæknum eigi að vera hægt að sækja þangað og að heilsugæsluna eigi að efla í því skyni. Það er verðugt að rifja upp stöðuna milli grunnþjónustunnar og sérhæfðu þjónustunnar, sjúkrahúsþjónustunnar, að það er svona svipað og Davíð og Golíat. Grunnþjónustan krefst kannski 10% af heildarkostnaði við heilbrigðisþjónustu en sjúkrahúsþjónustan 90%. En hlutfall verkefna sem þær eru að fást við í sjúklingafjölda, svo það sé tekið til viðmiðunar, er alveg þveröfugt við þetta, þ.e. að talið er að heilsugæslan geti sinnt um 90% þeirra verkefna sem til falla í heilbrigðisþjónustu og skilji þá eftir 10% af reyndar mjög sérhæfðum verkefnum hjá sjúkrahúsunum.

Ráðherra hefur með skýrum hætti lýst yfir vilja sínum til þess að efla heilsugæsluna. Hann hefur skipað nefnd til að gera tillögur þar að lútandi. Það sem ekki er framkvæmanlegt hjá grunnþjónustunni þarf að sinna af sérfræðilæknum, bæði á göngudeildum sjúkrahúsanna og á einkareknum stofum þeirra. Loks verður það sem eftir er viðfangsefni sjúkrahúsa.

Ekki er verjandi að sjúkrahús sinni verkefnum sem hægt er að leysa annars staðar og jafnvel ódýrar. Það ætti að vera keppikefli heilbrigðisþjónustunnar að sjúkrahús hafi sem minnst af óþörfum verkefnum svo að þau geti séð vel um þá sjúklinga sem enginn annar getur sinnt, m.a. vegna sérhæfingar starfsfólks, sérþekkingar starfsfólks eða sérhæfðs tækjabúnaðar. Helst þyrftu að geta verið einingar innan sjúkrahúsanna með meira faglegt og fjárhagslegt forræði yfir þeirri þjónustu sem þar er veitt.

Háskólahlutverkið eða kennsluhlutverkið finnst mér ekki nægja sem rök vegna þess að kennsla t.d. læknanema og hjúkrunarnema fer einnig fram utan sjúkrahúsa. Hún fer fram í heilsugæslunni og það er mjög mikilvægt að þeir sem eru að læra þessar greinar kynnist verkefnunum á réttum stað, t.d. að þeir kynnist ekki eftirliti með heilbrigðum ungbörnum, eins og ungbarnaeftirliti, inni á sérhæfðum kennsluspítala, heldur kynnist þeir börnunum í því umhverfi með sínum fjölskyldum þar sem þeim er fyrst og fremst sinnt og það er í heilsugæslunni.

Í áranna rás hefur vissulega margt breyst í meðferð veiks fólks. Legudögum hefur fækkað eftir aðgerðir og auðvitað leiðir það til aukins álags á starfsfólk spítalanna þegar æ veikari sjúklingar liggja inni og þurfa umönnun. Sjúklingar komast fyrr á fætur eftir aðgerðir og er það vel. Vel skipulögð heimahjúkrun á þátt í því að hægt er að sinna sjúklingum í vaxandi mæli heima fyrir.

Í 1. gr. frv. segir að ráðherra marki stefnu um forgangsröðun verkefna í heilbrigðisþjónustu og sé heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja stefnu um forgangsröðun, stuðla að aukinni hagkvæmni og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu. Þetta er í samræmi við þau markmið sem sett voru og fram komu í heilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi vorið 2001.

Segja má að það geti í ýmsum tilvikum orkað tvímælis að ráðherra ákveði hvar þjónusta fari fram, svo fremi sem kostnaður er álíka mikill og gæði sambærileg. Þá getur það verið samkomulag milli læknis og sjúklings sem á að ráða og fagleg sjónarmið verða ávallt að vera í fyrirrúmi. Læknar munu ekki sætta sig við að veita aðra þjónustu en þá sem þeir telja besta faglega séð og ég held að sjúklingarnir hljóti að vera þeim sammála.

Hvað gæðum í heilbrigðisþjónustu viðvíkur er eftirlitshlutverk landlæknis skýrt í mínum huga og á ég þar við fagleg gæði í læknisstarfi.

Þá kem ég aftur að því hve miklu skiptir að sérfræðingar í læknisfræði hafi líka sinn skýra sess í læknisþjónustunni, en um þá er lítið sem ekkert fjallað í heilbrigðisáætlun og þeirra er heldur ekki getið í lögum um heilbrigðisþjónustu. Athugasemdir hafa verið gerðar við það orðalag, bæði í heilbrigðisáætlun og í núverandi frv., að stjórn sérfræðilæknisþjónustu sé dreifð og ósamhæfð og bent á ýmis rök gegn þeirri fullyrðingu. En rétt er þó að benda á og undirstrika að allur samanburður við önnur lönd á faglegu innihaldi sérfræðiþjónustu hér á landi er okkur Íslendingum hagstæður, enda búum við vel af menntuðum og metnaðarfullum læknum.

Kannski og vonandi verður það svo að sátt og samlyndi geti ríkt milli lækna og heilbrigðisyfirvalda um ákvarðanir af því tagi sem ég hef nefnt og um sem flesta þætti sé fjallað í frjálsum samningum milli yfirvalda og læknastéttarinnar þótt ráðherra eigi að sjálfsögðu að hafa rétt til að ákveða kostnaðarhlutdeild sjúklingsins.

Komi upp ágreiningur þarf að vera til vettvangur til að leysa úr honum. Í landinu eru í gildi samkeppnislög og er eðlilegt að litið sé til þeirra þegar með þarf. Traust og trúnaður og gott samstarf heilbrigðisyfirvalda við lækna er grundvallaratriði í heilbrigðisþjónustu og allri þjónustu við sjúklingana.

Herra forseti. Frv. verður að loknum umræðum á Alþingi vísað til hv. heilbr.- og trn. og við yfirferð þess þar verður leitað eftir áliti þeirra aðila sem málið kann að varða.