Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 11:53:37 (730)

2001-10-18 11:53:37# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[11:53]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. heilbrrh. virðist ætla að láta til sín taka í því sem máli skiptir við að endurskoða þýðingarmikla þætti í heilbrigðiskerfi okkar. Á því er ekki vanþörf. Ég óska honum góðs gengis í því brýna verkefni og að honum takist að koma fleiru í verk en því sem hér er að finna, jafnágætt og það er.

Það er merkileg staða uppi hjá okkur Íslendingum hvað varðar einkarekstur. Þegar við förum að skoða hvernig einkarekstur hefur þróast eiginlega af sjálfu sér, án mikillar umræðu og þýðingarmikilla ákvarðana um að opna fyrir einkarekstur, hvort heldur í mennta- eða heilbrigðiskerfi, þá hefur það gerst og gerist í skjóli einhvers konar pilsfaldakapítalisma. Þannig er það í menntakerfinu. Opnaðir hafa verið einkaskólar og einkaskólarnir fá sama ríkisframlag og ríkisskólarnir, en þeir fá bara leyfi til að taka gjöld til að hafa sinn skóla flottari, til að kaupa betri, fleiri og dýrari tæki, búa betur að nemendum og greiða betri laun. Síðan á ríkisskólinn að keppa við þetta fyrirkomulag sem ábyggilega þekkist hvergi á byggðu bóli.

Förum svo yfir í heilbrigðiskerfið. Þar hafa ákveðnar fagstéttir fengið heimild til að flytja starfsemi sína frá sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum í einkarekstur á stofu úti í bæ. Og hver borgar þegar upp er staðið? Neytandinn, sjúklingurinn. Afgangurinn fer á samneysluna, eðlilega, af því að þær fagheilbrigðisstéttir sem hér um ræðir hafa fengið heimild til þess að vinna á eigin forsendum nokkurn veginn, auðvitað með ákveðnum samningum, allt öðruvísi samningum en þeirra sem starfa á stofnunum og sjúkrahúsum, og senda Tryggingastofnun reikninginn.

Auðvitað er eftirtektarvert að svo sé komið að skoða verði í alvöru sjálfstæða starfsemi t.d. lækna og ferliverk þeirra, hvort heldur er á einkastofunum eða hvort opna eigi á að heimila læknum sem starfa á sjúkrahúsunum --- og það gera flestir sem eru með stofur úti í bæ líka --- svokölluð ferliverk inni á sjúkrahúsunum. (Gripið fram í: Þeir eru það.) Í ríkari mæli. Hvað er svo þetta sem við köllum ferliverk? Þau eru í mörgum tilfellum ýmsar aðgerðir, mismunandi stórar.

Hér kom hv. þm. Ásta Möller og sagði að mikilvægt væri að skoða hvað þurfi að fara fram inni á sjúkrahúsunum. Ég er sammála hugsun þingmannsins Ástu Möller. En ég mundi sjálf kjósa að orða það svo að við verðum að skoða hvað best sé að fari fram á sjúkrahúsunum en ekki annars staðar, af því að á sjúkrahúsum eru í mörgum tilfellum skurðstofurnar, aðgerðastofurnar, tækin, öryggisþættirnir og allt sem þarf að vera reiðu ef eitthvað kemur upp á.

Auðvitað vitum við öll varðandi aðgerðir sem hafa farið fram úti í bæ að ef eitthvað kemur t.d. upp á, þá senda læknar á viðkomandi stofu, eða hvað það heitir einkarekna fyrirbærið úti í bæ, sjúkling sinn um leið og eitthvað sýnist óöruggt beint á sjúkrahúsið þar sem viðkomandi læknir er e.t.v. sjálfur læknirinn sem tekur við sjúklingnum á sjúkrahúsinu til þess að meðhöndla í réttu umhverfi það sem e.t.v. hefur farið úrskeiðis.

Það á að skoða alla þessa þætti, skoða hvað best er að fari fram á sjúkrahúsunum, skoða hvernig við nýtum best þá dýru stofnun sem sjúkrahús er, hvað við viljum að sé þar, hvernig hún er búin tækjum og hvað sé í lagi að gera annars staðar.

En við eigum líka að vera gagnrýnni á hvað einkastofnun er, hvort heldur það er einkaskóli eða einkasjúkrahús þó í smáum stíl sé, og hvers konar ríkisrekið samfélagsfyrirbæri við viljum hafa. Ég verð að viðurkenna að mér hefur alla tíð fundist afskaplega undarlegt, og ég hef af því reynslu, að vera með barn sem þurfti að fara í margar aðgerðir og eftirlit á sjúkrahúsi. Stærstu aðgerðirnar voru undantekningarlaust gerðar á sjúkrahúsinu, eftirlit og skoðun utan sjúkrahússins. Litlu aðgerðirnar voru gerðar á stofu úti í bæ sem læknirinn á sjúkrahúsinu rak með félögum sínum. Við þekkjum þetta öll. Ég verð að viðurkenna að þegar ég kom klukkan fimm um eftirmiðdaginn með barn sem átti að fara í svæfingu og aðgerð og læknarnir sem þarna voru voru allir búnir að vera við aðgerðir fyrr um daginn á sjúkrahúsinu og nú var svo komið að fínu skurðstofurnar á sjúkrahúsinu stóðu auðar en ég komin með barnið til að fara með það í svæfingu á lítilli aðgerðastofu úti í bæ, að ég spurði mig æ ofan í æ: Af hverju er ég hér? Af hverju mætti ég ekki, t.d. að loknum stóru aðgerðunum á sjúkrahúsunum klukkan þrjú, eða hvað klukkan er nú þegar þar er hætt, með barnið í öruggt umhverfi? Þrátt fyrir allt átti að svæfa það. Af hverju var ég með það úti í bæ þar sem beðið var kannski eftir 17 aðgerðum klukkan fimm um dag? Af hverju sat ég þar á lítilli biðstofu með fjöldanum öllum af sjúklingum, börnum eða fullorðnum? Og af hverju sat ég með barnið mitt bak við lítið tjald og beið eftir að það vaknaði þannig að ég gæti borið það út í bílinn til að keyra það heim? Af hverju var ég ekki með barnið í öruggara umhverfi? Auðvitað gengur þetta allt vel ef maður er svo heppinn að ekki koma upp nein vandamál. En ég hugsaði um stóra sjúkrahúsið og barnadeildina sem ég þekkti svo vel, fyrirmyndarbarnadeild. Ég velti því fyrir mér af hverju við erum með heilbrigðiskerfi þar sem barnið fer ekki í aðgerð þarna áfram og er í fínu umhverfi meðan það er að vakna og af hverju ekki er búið betur að barnadeildinni með þessum fjármunum í stað þess að flytja verkefni út í bæ svo að læknirinn þar fari að selja ríkinu vinnu sína með öðrum hætti en inni á sjúkrahúsinu.

[12:00]

Sjaldan hef ég orðið glaðari en þegar þáv. heilbrrh. Guðmundur Árni Stefánsson tók skrefið í að byggja barnaspítalann sem búið var að tala um áratugum saman. Ég fagnaði því og ég mun fagna því þegar hann verður opnaður af því að ég þekki starfsemina í því umhverfi.

Ég verð að segja, hv. þingmenn, að þegar við erum að ákveða að kaupa dýr rannsóknartæki á stofu úti í bæ af því það sé svo hagkvæmt að allir sem þurfa að fara í slíka rannsókn fari bara í rannsóknina á rannsóknarstofu úti í bæ og borgi sinn skerf og reikningurinn sé síðan sendur á samneysluna --- tækið er ekki til á spítalanum --- að þegar maður situr við sjúkrabeð fárveiks sjúklings með 40 stiga hita og það þarf að pakka honum inn og senda hann út í bæ á rannsóknarstofu til að láta hann fara í rannsókn þar af því að sniðugra þótti og betra að hafa dýra rannsóknartækið þar en á spítalanum, þá viðurkenni ég, með þá samfélagssýn sem ég hef, að ég skil ekki hagkvæmnina og dæmið af því að mér finnst að besta aðstaðan eigi að vera á sjúkrahúsinu, að þar eigi að vera hagkvæmni. Þar eigum við að skoða hvernig reksturinn er bestur.

Þess vegna hef ég t.d. verið fylgismaður þess að sameina stóru sjúkrahúsin og að ákveða hvar við ættum að hafa barnaspítala þar sem besti aðbúnaðurinn væri, í stað þess að deila honum á þrjá staði, að ákveða hvar bestu rannsóknartækin skuli vera og að öruggt sé að sá sem veikastur er geti farið í tækið en ekki þurfi að pakka honum inn og keyra hann í sjúkrabíl fram og til baka fárveikan og að við nýtum rannsóknastofurnar.

Gera menn sér grein fyrir því að ef sjúklingur lendir á sjúkrahúsi hér á landi á föstudagskvöldi og ekki er hægt að finna út hvað að honum amar, jafnvel þó það sé dularfullt, jafnvel hættulegt, þá er engin rannsóknastofa opin fyrr en á mánudegi? Ég lenti í því fyrir ári síðan að sitja yfir slíkum sjúklingi. Það var sennilega ekki talið nógu alvarlegt að kallað væri út fólk. Þannig var það.

Ég hef líka komið á sjúkrahús í sjálfri Ameríku, vöggu einkavæðingar og einkareksturs á öllum sviðum, á sjúkrahús þar sem kemur fólk alls staðar að úr heiminum. Ég sat með lækni þar klukkan átta um kvöld og það var pípað á hann. Og ég spurði: Er þetta ekki sjúkrahús þar sem er eiginlega bara allt er í gangi til fimm á daginn? Nei, þetta sjúkrahús hefur hvorki efni á því að láta skurðstofurnar sínar standa auðar né að nýta ekki rannsóknartæki og rannsóknastofur, helst allan sólarhringinn.

Það sem ég er hér að segja er að við þurfum að skoða margt. Ég stend ekki hér með lausnirnar. Ég opinbera fyrir ykkur þær hugsanir sem hafa áreitt mig á sérstökum stundum þegar ég er að njóta heilbrigðiskerfisins sem mér finnst afbragðs gott á Íslandi. Ég held að leitun sé á betra en því að fara á sjúkrahús sjálfur eða með barn eða aldraðan hvað þjónustuna, umönnunina eða umhyggjuna varðar og það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með því í gegnum tíðina hve starfsmannahald hefur verið stöðugt á þungum deildum sjúkrahúsanna. Það er til slíkrar fyrirmyndar. Ég vil að við hlúum að þessum þætti til að þannig verði það áfram að við metum um leið og við forgangsröðum, eins og hæstv. ráðherra er að tala um, hvað viljum við helst, hvað sé best að fari fram á sjúkrahúsunum.

Svo held ég að fyrr en síðar verðum við að líta þannig á að einkarekstur sé einkarekstur og að fyrir hann sé borgað, ef það er það sem fólk endilega vill --- það er ekki mín stefna --- en að hið opinbera sjái um rekstur hins opinbera þannig að við eigum möguleika á því, ef fagstéttir t.d. í heilbrigðiskerfinu --- ég nefni þetta vegna þess að nú erum við að ræða heilbrigðiskerfið en þetta á við um fleiri --- vilja vera úti á markaðnum með eigin rekstur, þ.e. ef niðurstaðan á eftir að verða sú við skoðun í samfélaginu, eigum við þá ekki að hafa það þannig að allt það færa fólk í heilbrigðisstétt, sem er úti um allan heim að störfum, geti komið heim að starfa á stofnunum og sjúkrahúsum þar sem fólk nú er í tveim og þrem störfum og aðrir komast ekki að?

Herra forseti. Þetta eru vangaveltur mínar, ekki lausnir, ekki endilega umræða um hverja grein í frv. En svo sannarlega á þessi umræða við hér og nú.