Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 12:13:07 (733)

2001-10-18 12:13:07# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[12:13]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Þetta gefur tilefni til umræðu á ýmsum nótum. Ég lít svo á að frv. sem við erum með hérna fyrir framan okkur opni á aukna möguleika til þess að nýta þau tæki sem eru inni á sjúkrahúsunum.

Eins og ég benti á áðan í andsvari við hæstv. heilbrrh., þá opnaði heilbrigðisráðherra Alþýðuflokksins á ferliverk inni á sjúkrahúsunum einmitt til þess að nýta betur þau tæki og tól sem eru þar. Og það hefur verið gengið enn lengra í þá veru.

Það sem mér finnst eitt mikilvægasta verkefnið fram undan í heilbrigðisþjónustu er að ná utan um kostnaðinn. Og það er hægt að gera m.a. með samningum við heilbrigðisstarfsmenn um ákeðið magn þjónustu, hvort sem það er gert innan eða utan sjúkrahúsa. Það er þannig, hv. þingmaður, að sum verk í heilbrigðisþjónustu eru þess eðlis að fólk þarf ekki að leggjast inn á sjúkrahús til þess að þau séu gerð.

Mörg verk, eins og t.d. hálskirtlataka sem nefnd var hér áðan, er hægt að gera utan sjúkrahúsa. Hún þarfnast ekki innlagnar. Og eftirlitið á að vera slíkt og þjónustan, að fólk á að vera öruggt. En það þarf ekki sjúkrahús til. Ef einstaklingur sem fer í hálskirtlatöku er lagður inn á sjúkrahús --- það væri þá náttúrlega í einhverjum sérstökum tilvikum --- þá kallar það á aukið starfsmannahald og aukinn kostnað.

Það er hægt að gera það jafnöruggt, jafn vel og með jafnmiklu eftirliti úti í bæ. En kostnaðurinn er minni. Það er bara þannig að þegar fólk er að veita þjónustu og heldur sjálft utan um peningana þá fer það betur með aurana. Þannig er það.