Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 12:24:48 (736)

2001-10-18 12:24:48# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[12:24]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þm. hv. Samfylkingarinnar fagna því að frv. er komið fram og tel að flest atriði þess séu til bóta. Eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fór hér yfir áðan þá skiptir þetta miklu máli, þ.e. forgangsröðun þeirrar þjónustu sem á að veita. Það auðveldar það að ná markmiðum heilbrigðisáætlunar sem samþykkt var hér á Alþingi af fulltrúum allra flokka. Ég tek einnig ég undir það sem hv. þm. Ásta Ragnheiður kom aðeins inn á varðandi auknar heimildir Tryggingastofnunar til eftirlits.

Ég vildi þó kannski spyrja hæstv. ráðherra fyrst, áður en ég fer út í það sem mér finnst skipta hvað mestu máli í þessu frv. Í 6. gr. frv. segir:

,,Ráðherra skal ákveða daggjöld dvalarheimila fyrir aldraða, hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum og hjúkrunarheimila sem ekki eru á föstum fjárlögum með reglugerð að höfðu samráði við viðkomandi stofnanir.``

Síðan segir: ,,Daggjöld hjúkrunarheimila og daggjöld vegna hjúkrunarrýma skulu ákveðin með hliðsjón af mati á hjúkrunarþyngd.``

Þau daggjöld sem áætluð eru á dvalarheimilum, hvaða regur gilda um þau? Hvernig eru þau metin? Hvaða kröfur eru gerðar til dvalarheimila fyrir aldraða? Hvernig er eftirliti háttað af hálfu ráðuneytis eða annarra aðila með því að sú þjónusta sem gert er ráð fyrir að sé til staðar, miðað við það fjármagn sem viðkomandi stofnun fær, sé veitt? Er um reglubundið eftirlit að ræða? Þetta á þá auðvitað einnig við um hjúkrunarheimilin, það þarf auðvitað reglubundið eftirlit.

Mér hefur virst af heimsóknum mínum á dvalarheimili aldraðra vítt og breitt um landið, að það vanti töluvert upp á að eftirlitið með þessum stofnunum sé fullnægjandi. Þjónustan sem veitt er á viðkomandi stofnunum er afar mismunandi. Ég held að mikil þörf sé á að samræma þessa þjónustu, endurskoða þær reglur sem gilda um hana, þ.e. á dvalarheimilum fyrir aldraða, og sjá til þess að þjónustan sem á að veita sé til staðar, sérstaklega hvað varðar þá sem eiga við einhverja sjúkdóma að stríða en þurfa ekki að vera á hjúkrunarheimilum. Þar ber auðvitað að athuga þjónustuna og þær kröfur sem gerðar eru til starfsfólks. Er krafa gerð um það að hjúkrunarfræðingur, sjúkraliði eða læknir sé í föstu starfi eða eftirliti --- eða allir þessir heilbrigðisstarfsmenn séu reglubundið til staðar? Er eitthvað um að rekin séu elliheimili eða dvalarheimili fyrir aldraða án þess að faglærður starfsmaður úr heilbrigðisstétt, annaðhvort sjúkraliði eða hjúkrunarfræðingur, starfi á staðnum? Eru einhver dæmi þess? Ef svo er þá vildi ég spyrja hæstv. ráðherra: Segir ekki í þeim reglum sem gilda um starfsemi slíkra stofnana að þar skuli vera faglærður heilbrigðisstarfsmaður í fullu starfi?

Virðulegur forseti. Það sem ég vildi gera hér fyrst og fremst að umtalsefni er e.t.v. ástæða þess að þetta frv. er lagt fram, þ.e. hvernig farið hefur með greiðslu fyrir ferliverk inni á sjúkrahúsum og hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Þegar reglugerðin var sett á 1992 þá var, að mig minnir, miðað við að þarna væri um verk að ræða þar sem ekki þurfti að leggja sjúklinginn inn nema í undantekningartilvikum, þá helst ekki nema í um 24 tíma. Þegar ferliverkaeiningar svokallaðar voru ákveðnar á heilbrigðisstofnanir þá var viðmiðunin sett á árin 1996 og 1997. Síðan þá hefur hlutverk mjög margra sjúkrastofnana og sérstaklega sjúkrahúsa út um landsbyggðina breyst. Mikill metnaður hefur verið lagður í það af hálfu þeirra sem hafa rekið þessi sjúkrahús að bjóða upp á fjölþætta og öðruvísi starfsemi en veitt var á viðmiðunarárunum 1996 og 1997. Engu að síður hefur afstaða ráðuneytisins ekki breyst nema að litlu leyti til þess hversu margar einingar eiga að fara á viðkomandi sjúkrahús eða sjúkrastofnun.

[12:30]

Ríkisendurskoðun tók að sér að gera úttekt á ferliverkum sjúkrahúsa og henni var skilað í júní sl. Staðan á níu sjúkrahúsum á landinu var athuguð. Sex þessara níu sjúkrahúsa höfðu farið verulega fram úr þeim áætlunum sem gerðar voru varðandi það magn ferliverka sem hvert sjúkrahús fékk úthlutað. Niðurstöðutölur Ríkisendurskoðunar segja, ef miðað er við tölur frá þeim níu sjúkrahúsum sem úttektin náði til, að umfang ferliverka í heild hafi aukist um tæplega 4% milli áranna 1999 og 2000 en dæmi eru um einstök sjúkrahús þar sem vöxturinn var mun meiri, jafnvel tugir prósentna. Samtals var farið meira en 333 þús. einingar fram yfir úthlutað einingamagn á sex þessara sjúkrahúsa á viðkomandi tímabili.

Ýmsir munu halda því fram að þetta væri stjórnendum sjúkrahúsanna að kenna, að þarna væri verið að fara langt út fyrir þann ramma sem áætlaður er í fjárlögum hverju sinni, að reglurnar segðu að menn skulu halda sig innan þess ramma sem ákveðinn er. Og innan þess ramma er ferliverkaeiningum úthlutað.

Þegar stjórnendur þessara sjúkrahúsa hafa síðan farið í viðræður um breytingar við heilbr.- og trmrn. hefur það auðvitað átt mjög erfitt um vik með að auka fjárveitingar, einfaldlega vegna þess að Alþingi hefur líka sett ráðuneytinu ákveðinn ramma til að fara eftir. Þá hafa þeir sem starfa á sjúkrahúsunum ákveðin ráð til að mæta þessu. Og ég ætla, virðulegi forseti, að lesa upp úr skýrslunni án þess að tilgreina um hvaða stofnun er að ræða, hvernig því er mætt þegar úthlutaðar einingar eru uppurnar um mitt ár. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er um að ræða eitt dæmi af mörgum, með leyfi forseta:

Í ársbyrjun árið 2000 tilkynnti nýráðinn framkvæmdastjóri sérfræðingum við þessa ákveðnu stofnun að meðan einingakvóti stofnunarinnar væri óbreyttur yrði við það miðað að ekki yrðu unnin ferliverk umfram kvóta, þ.e. 56.034 einingar. Sérfræðingar voru ósáttir við þetta og brást hluti þeirra við með því að koma á fót einkarekinni læknastofu utan stofnunarinnar. Náðust samningar milli sérfræðinganna og Tryggingastofnunar um einingar vegna þeirrar starfsemi. Framkvæmdastjóri vann að því í samráði við ráðuneytið að stofnunin fengi auknar heimildir til ferliverka og voru sérfræðingar upplýstir um framgang mála. Í maí var ljóst að einingakvóti yrði senn á þrotum. Um miðjan júní voru einingar stofnunarinnar uppurnar. Til að bregðast við ákvað ráðuneytið að fela Tryggingastofnun ríkisins að gera samning við hvern og einn sérfræðing um tiltekinn fjölda eininga út árið. Samningarnir fólu samtals í sér 55.000 einingar. Samkvæmt þeim gerði Tryggingastofnun ríkisins beint upp við sérfræðingana en stofnunin innheimti sjúklingahluta og aðstöðugjöld. Ekki var unnið að fullu upp í þann viðbótarkvóta sem fékkst með þessu móti á árinu 2000 en í heild námu unnin ferliverk á þessari stofnun 105.069 einingum á því ári --- á því ári sem áður hafði fengið úthlutað, virðulegi forseti, 56.034 einingum. Til viðbótar við þau ferliverk sem hér hefur verið fjallað um vinnur háls-, nef- og eyrnalæknir ferliverk innan stofnunarinnar sem farandsérfræðingur með samning við Tryggingastofnun ríkisins. Svæfingalæknir stofnunarinnar vinnur með honum samkvæmt sérstökum samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Það er sem sagt í viðbót við þessar 105.000 einingar sem urðu niðurstaðan eftir árið --- þegar úthlutaðar einingar voru 56.000.

Og af hverju skyldi þetta nú vera? Það er vegna þess að þarna er um tvöfalt samningakerfi að ræða. Og ég tel að það frv. sem ráðherra leggur hér fram sé eitthvert besta svarið við þeirri gagnrýni sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi það hvernig farið er með ferliverkið.

Ég tel að ef ein samninganefnd heldur um stýrið séu meiri möguleikar á að meta raunverulega þörf stofnunar, það sé hægt að sleppa þeim viðmiðunarárum sem áður voru og meta betur hvort t.d. skuli farið út í meiri sérhæfingu á sjúkrahúsum úti um landsbyggðina þar sem ákveðin þjónusta er keypt af þeim og ferliverkaeiningum úthlutað á móti. Og með því sé í raun og veru líka hægt að nálgast mun betur það markmið sem sett er fram í heilbrigðisáætlun um forgangsröðun verkefna innan heilbrigðisþjónustunnar. Ef slík samninganefnd á að skila sem bestum árangri verður auðvitað að fara í það verkefni sem hér hefur verið nefnt, þ.e. að skoða vel hvaða verkefni á að vinna inni á sjúkrastofnunum og hvaða verk er hægt að vinna utan þeirra og, eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi, að skilgreina þetta með mjög skýrum hætti.

Ef sú skilgreining liggur fyrir mun það auðvelda mjög hvernig m.a. er staðið að úthlutun ferliverkaeininga sem deila hefur staðið um alveg síðan fyrir 1998 en þá yfirtóku sjúkrahúsin sjálf samningana. Það setti þeim afar þröngar skorður. Ég tel, virðulegi forseti, að nánast öll sú gagnrýni sem fram hefur komið á stjórnendur sjúkrahúsa varðandi framúrkeyrslu vegna ferliverkaeininga, sé óréttmæt. Ég tel að úthlutuðum ferliverkaeiningum hafi vísvitandi verið haldið niðri vegna þeirra möguleika að semja aukalega við TR. Ég tel að frá því að þessir samningar voru gerðir við sjúkrahúsin hafi aldrei verið gerðir raunhæfir samningar, aldrei verið gerðar raunhæfar áætlanir og aldrei verið gert raunhæft mat á þörf hverrar sjúkrastofnunar, aldrei gert ráð fyrir að þau yfirtækju samningana við starfandi sérfræðinga varðandi ferliverkin vegna þess að menn vissu að sérfræðingarnir gátu farið yfir á aðra samninga og jafnvel opnað læknastofur í litlum stofum við hlið sjúkrahúss á hverjum stað.

Þess vegna fagna ég mjög því frv. sem ráðherrann hefur lagt hér fram því að ég tel að þessi leið sé sú skynsamlegasta til þess að ná hámarksárangri. Varðandi það frv. sem hér er, verði það að lögum sem ég vona svo sannarlega að verði og það sem allra fyrst, verður um leið að skoða og með skýrum hætti hvert hlutverk sjúkrahúsanna á að vera og hvert hlutverk sjálfstætt starfandi stofnana á að vera þannig að hægt sé að skoða það þegar samningar eru gerðir við sérfræðingana. Ég á sjálf sæti í heilbr.- og trn. og mun leggja mitt af mörkum.

Ég tel að sá ótti sem fram hefur komið eða andstaða hjá læknastéttinni og sérfræðingum gagnvart þessu frv. sé algjörlega ástæðulaus vegna þess að það er ekki verið að setja skorður við því að verk verði unnin. Þau verða unnin. En það verður kannski meiri samræming í því hvar þau verða unnin og af hverjum. Það er löngu tímabært að takast á við það verkefni.