Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 12:39:30 (737)

2001-10-18 12:39:30# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[12:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á tveimur lagabálkum, lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar. Ég hef að sjálfsögðu fyrirvara um einstakar greinar þessa frv. og á eftir að átta mig fyllilega á því hvaða afleiðingar þær kynnu að hafa. Þó vil ég taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram við umræðuna, að mér sýnist frv. vera til þess fallið að styrkja stöðu heilbrigðisyfirvalda til að marka stefnu um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni og ná betur utan um fjármálin. Reyndar er staðfest af hálfu fjmrn. að svo muni að öllum líkindum verða.

Ég vil taka undir það sjónarmið hæstv. heilbrrh. að það er mjög mikilvægt að góð fagleg umræða fari fram um hvað eigi að vera inni á sjúkrahúsum og hvað utan þeirra. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Þuríði Backman, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í heilbr.- og trn., um það efni.

Mig langar þá til að leggja áherslu á að þessi umræða er engan veginn einföld. Við heyrðum t.d. fulltrúa Sjálfstfl. lýsa því yfir við umræðuna, aftur og ítrekað, að á sjúkrahúsum ætti ekki að vera neitt sem ekki væri --- ég man nú ekki hvernig það var orðað --- óþarfar aðgerðir ættu ekki að fyrirfinnast inni á sjúkrahúsunum. Og ég skildi þingmennina svo að þeir vildu að það sem hægt væri að vinna utan veggja sjúkrahúsanna ætti að vera á einkareknum stofum. Síðan var því bætt við að að sjálfsögðu ætti samfélagið að greiða fyrir þessa þjónustu.

Einn hv. þm. bætti um betur og sagði að miklar líkur væru á því að verkin yrðu betur unnin og fyrir minni peninga. Reynslan erlendis frá talar nú ekki þessu máli vegna þess að það heilbrigðiskerfi í heiminum sem er einkarekið, bandaríska heilbrigðiskerfið, er jafnframt kostnaðarsamasta heilbrigðiskerfi í heiminum. Það er dýrt vegna þess að heilbrigðiskerfið þarf að bera uppi fjárfesta sem fjárfest hafa peninga í því kerfi og vilja taka út úr því arð, auk þess sem það þarf að bera uppi mikið bákn lögfræðinga sem malar gull á kostnað sjúklinga og sjúkrahúsa í Bandaríkjunum.

Vandinn við þessa umræðu, þrátt fyrir góðan ásetning hæstv. heilbrrh. að vilja halda umræðunni á faglegum nótum, um hvað eigi að vera inni á sjúkrahúsum og hvað utan veggja þeirra --- ég tek undir það sjónarmið --- er sá að við eigum náttúrlega í höggi við einstaklinga og hópa sem eru fyrst og fremst bisnessmenn þótt þeir klæðist hvítum læknasloppum. Þeir vilja koma þessari þjónustu inn í einkarekstur sinn úti í bæ. Og þetta eru staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við.

Vandinn er sá að það er svo erfitt að hafa hemil á ferlinu. Fyrsta skref er að tiltekin aðgerð er framkvæmd utan veggja sjúkrahúsanna. Síðan er gerð krafa um að jafnræðis sé gætt í greiðslum, sömu upphæð eigi að greiða inni á sjúkrahúsunum og utan veggja þeirra. Síðan hefur tilheigingin verið sú að verða við þessari kröfu, eins vafasöm og mér finnst hún vera. Síðan er gengið enn lengra. Nú er kvartað yfir því að það sem fyrirfinnst innan veggja sjúkrahúsanna sé niðurgreitt, það njóti stuðnings af bakumhverfi sínu og þess vegna verði að úthýsa verkinu alveg af sjúkrahúsinu. Það er næsta skref.

Við verðum að átta okkur á því að þegar sérfræðingar utan veggja sjúkrahúsanna eru að taka ákvarðanir, sem þeir segja fyrst og fremst vera á faglegum nótum með hag sjúklingsins fyrir brjósti, þá eru þeir jafnframt að taka fjárhagslega ákvörðun um hvert fjármagni verður beint. Ég þekki dæmi af því sjálfur. Þegar ég þurfti einhvern tímann að leita læknis og fara í myndatöku átti að vísa mér í Domus Medica. Ég spurði hvernig í ósköpunum stæði á því að mér væri ekki vísað inn á sjúkrahús þar sem þessi aðstaða er og þjónustan veitt og minnti lækninn á að hér væri hann að taka fjárhagslega ákvörðun, hann væri að beina fjármagni sem kæmi frá samfélaginu inn í tiltekinn einkarekstur. Síðan er niðurstaðan sú að þessi stofnun fær smám saman yfir að ráða vandaðri tækjabúnaði en er fyrir hendi inni á sjúkrahúsunum. Við munum hvernig það gerðist þegar sú stofnun, eða það fyrirtæki, festi kaup á rándýru tæki sem ríkinu var síðan stillt upp við vegg og átti ekki annarra kosta völ en að fjármagna. Þess eru dæmi að menn hafi verið keyrðir í sjúkrabílum af Borgarspítalanum upp í Domus Medica til að fara þar í myndatöku í miklu betri tækjabúnaði en fyrirfannst á Borgarspítalanum, a.m.k. á þeim tíma sem ég hef mitt dæmi um, þannig að allt er þetta mjög flókið mál. Ég minni á að í þessari umræðu, þótt ég vilji gjarnan að hún sé á faglegum nótum og þannig á hún að vera, erum við líka að ræða um peningahagsmuni.

Ég fagna þeim yfirlýsingum sem fram hafa komið frá hæstv. heilbrrh. um að hann vilji sporna við einkavæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar. Hann á minn stuðning í því efni.