Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 12:47:23 (738)

2001-10-18 12:47:23# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[12:47]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Eitt atriði fékk mig til þess að biðja um orðið. Það er að ég á í fórum mínum úrskurð úrskurðarnefndar almannatrygginga vegna örorkuþega sem er að missa tennur vegna tannholdssjúkdóms. Það er verið að gera breytingar á þeim tveimur lagabálkum sem þarna skipta máli og mig langar til þess að fræðast um það hjá hæstv. ráðherra hvort verið sé að taka á því sem kemur við sögu í þessum úrskurði og ég ætla að koma hér til skila.

Þessi maður hefur átt við miðtaugasjúkdóma að stríða en hefur verið að missa tennur af öðrum ástæðum. Hann telur sig ekki, og það styðja bréf frá læknum, hafa sama gagn af því að fá lausar tennur eins og annað fólk vegna skjálfta sem hann hefur af sínum sjúkdómi. Hann hefur því sótt um að fá aðstoð til þess að fá fastar tennur og í þessu plaggi sem er frá úrskurðarnefnd almannatrygginga er vitnað í lög nr. 117 um almannatryggingar þar sem segir að sjúkratryggingar skuli veita styrk til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 37. gr. nær til, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Síðan er sagt:

,,Það liggur fyrir að viðkomandi er að missa tennur vegna tannholdssjúkdóms. Við leit í gagnagrunni fundust engar endanlegar sannanir fyrir því að sá sjúkdómur sem hann hefur valdi alvarlegum tannholdssjúkdómum. Af þessu verður að draga þá ályktun að tannvandi hans sé ekki afleiðing sjúkdóms hans.

Á þessum grundvelli er honum neitað um þessa aðstoð sem gert er ráð fyrir að hægt sé að veita mönnum í þeirri stöðu sem hann er í.

Mig langar til þess að fræðast um það hjá hæstv. ráðherra hvort nokkuð í þeim breytingum sem verið er að leggja til á þessum lögum geri það kleift varðandi þennan mann eða menn í þessari stöðu, þ.e. sem ættu að eiga möguleika til þess að fá aðstoð við t.d. að fá fastar tennur auðvitað með þann úrskurð að baki að þeir þurfi virkilega á því að halda, þ.e. að hægt sé að koma til móts við þá vegna þess að það er ekki hægt miðað við úrskurðarorð úrskurðarnefndar almannatrygginga. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa úr lokaorðum þar.

,,Að mati nefndarinnar má ráða af fyrirliggjandi gögnum að tannholdsvandinn sé aðalorsök þess að kærandi hefur misst tennur. Ekki verður af gögnum málsins ráðið hvers vegna kærandi hefur glímt við tannholdsvanda. Margar ástæður geta legið þar að baki, jafnt almenn tannhirða sem aðrir sjúkdómar.

Ekkert kemur fram í gögnum máls og engin rök hafa verið færð fram fyrir því að tannholdsvandamál kæranda séu þess eðlis að þau geti talist til annarra sambærilegra tilvika, sbr. 7. og 3. gr. og þannig verið grundvöllur greiðsluskyldu. Kærandi er með miðtaugasjúkdóm en að mati nefnarinnar hefur ekki verið sýnt fram á að hann valdi tannholdssjúkdómum og verður tannvandi kæranda því ekki rakinn til hans. Ekki er dregið í efa að erfiðara en ella er fyrir kæranda að nota venjulegar gervitennur vegna skjálfta. Ákvæði almannatrygginga veita hins vegar ekki heimild til þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar sem eru afleiðing hans.``, þ.e. sjúkdómsins.

Það er sem sagt ekki heimild til þess að koma til móts við þennan mann af því að hann er ekki að missa tennurnar vegna rétts sjúkdóms.

Mér finnst þetta afskaplega dapurleg niðurstaða fyrir þá sem lenda í þessu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort nokkuð sé í þeim breytingum sem er verið að gera á þessum tvennum lögum sem gerir það fært að koma til móts við menn í þeirri stöðu sem hann er í. Ég staðnæmdist helst við lokaákvæðið í 4. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Með reglugerð er einnig heimilt að ákveða þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í greiðslu kostnaðar við tannlækningar og ákveða frekari kostnaðarþátttöku í heilbrigðisþjónustu en mælt er fyrir um í þessari grein.``

Mundi þetta ákvæði t.d. ná til þeirra tilvika sem ég er að tala um. Getur ráðherrann upplýst mig um málið og hvort honum er kunnugt um að svona hagi til og hvort farið hafi verið yfir þetta þegar verið var að semja frv. sem liggur hér fyrir?