Heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 12:53:48 (739)

2001-10-18 12:53:48# 127. lþ. 15.2 fundur 169. mál: #A heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar# (forgangsröð verkefna o.fl.) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[12:53]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem hér hefur farið fram og þann stuðning sem frv. hefur fengið. Ég met hann mikils. Umræðan hefur bæði snúist að hugmyndafræðinni varðandi heilbrigðiskerfið og hlutverki sjúkrahúsa og nýtingu sjúkrahúsa sem hv. 4. þm. Reykn. kom að. Það er eitt af þeim aðkallandi verkefnum sem við erum ætíð að fást við að nýta þann mikla tækjakost, aðstöðu, þekkingu og skipulag á sjúkrahúsunum í þágu sjúklinga. Æskilegt er að það nýtist sem best og ég tel að frv. sé jákvætt skref í þá átt. Ég endurtek að frv. kemur ekki að neinu leyti í veg fyrir rekstur utan sjúkrahúsa. Það er hlutlaust hvað það snertir. Eigi að síður tel ég nauðsynlegt, eins og ég talaði um í upphafi, að fram fari mat á því og umræða um það hvaða heilbrigðisþjónustu heppilegt sé að veita utan sjúkrahúsa. Ég endurtek það sem ég hef áður sagt um það. Ég tel að einkarekstur á þessu sviði og rekstur sjúkrahúsa geti farið saman og að okkar verkefni sé að finna heppilegasta skipulagið í þessum efnum.

Hv. 3. þm. Suðurl. kom inn á eftirlit og kröfur með dvalarheimilum aldraðra, hvernig það er veitt og hvort reglubundið eftirlit sé með þessum stofnunum, hvort hjúkrunarfræðingar eða læknar starfi á öldrunarstofnunum. Það er hlutverk landlæknis að hafa eftirlit með heilbrigðisstofnunum. Það eftirlit hefur beinst í ríkum mæli að sjúkrahúsum og læknisverkum sem þar hafa farið fram og því er ekki að neita að það hefur ekki verið reglubundið eftirlit með öldrunarheimilum. Vafalaust mætti koma á betra skipulagi í þeim efnum og er ég tilbúinn til þess að afla mér frekari upplýsinga í framhaldi af þessum ábendingum og ræða það innan ráðuneytisins hvort við getum bætt hér úr.

Ég hef ekki í huganum a.m.k. dæmi um öldrunarheimili án hjúkrunarfræðings eða aðgangs að lækni. Þar er þá eitthvert neyðarástand varðandi mönnun. Ég ætla ekkert að útiloka það. En ég held að svo sé nú samt og tel mig hafa vissu fyrir því að það sé meginreglan og að það sé ekki nema þá í einhverjum undantekningartilfellum sem slíkt fagfólk vantar og er það mjög tilfinnanlegt ef svo er og auðvitað ber að stefna að því að það sé alls staðar fyrir hendi.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir öflugan stuðning við frv. og tel að það gefi tækifæri til þeirrar samræmingar sem hún kom inn á og vitnaði til ferliverkaskýrslunnar í því efni.

Ég tek undir með hv. 13. þm. Reykv. að það er flókið að fara yfir það hvert eigi að vera hlutverk sjúkrahúsa og hvað eigi að vinna utan sjúkrahúsa. Ég endurtek það, enda vorum við sammála um það efnislega að um það þarf að fara fram fagleg umræða með öryggissjónarmiðin í fyrirrúmi og það hvað komi sjúklingunum best. Ég efast ekkert um að læknar sem starfa utan sjúkrahúsa séu mjög færir menn og hafi þau sjónarmið í heiðri. En faglega umræðan verður þarna að vera númer eitt og líka þær öryggiskröfur sem gerðar eru um þessa starfsemi. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla að læknastéttin sé ekki tilbúin til þess að ræða þær kröfur og fara eftir þeim í sínu starfi. Ég ber mikið traust til hennar hvað þetta varðar.

Varðandi spurningu hv. 3. þm. Vesturl. um þátttöku í tannlæknakostnaði og úrskurðarnefndina þá verð ég að upplýsa að ekkert í þessu frv. tekur á því vandamáli sem hann nefndi. Hins vegar er sá embættismaður ráðuneytisins sem var ráðinn í ráðuneytið í sumar og sér um þessi mál að vinna mikið starf við reglugerð um þátttöku í tannlæknakostnaði og þær reglur sem um það gilda. Ég vonast til að niðurstaða þeirrar vinnu liggi fyrir innan tíðar. Þess ber að geta að miklir erfiðleikar hafa verið á því að ná samningum við tannlækna. Samningaumleitanir hafa verið í gangi mjög lengi. Ég hef áhuga á að gera gangskör að því hvort ekki sé mögulegt að ná samkomulagi milli tannlækna og Tryggingastofnunar um greiðslu Tryggingastofnunar til þeirra. Ég vona svo sannarlega að það takist. En það hefur ekki tekist enn. Það hefur truflað þessa vinnu. Þó að í sjálfu sér sé hægt að breyta reglugerðum án þess að samningar taki gildi þá höfum við viljað kappkosta að hafa heildaryfirsýn yfir þessi mál og ég vonast til og vil gera mitt til þess að samningar takist á þessum vettvangi.

Ég held að ég hafi farið yfir þær spurningar sem beint var til mín. Ég vil endurtaka þakkir fyrir mjög góða og málefnalega umræðu um þetta mál sem er flókið og vandasamt. Það tekur til ýmissa hagsmuna. Auðvitað verðum við að hafa hagsmuni notenda heilbrigðisþjónustunnar í fyrirrúmi. En við verðum líka að muna að hið góða starfsfólk í heilbrigðisþjónustunni, læknar, fagfólk og allir sem við hana vinna, ber hana uppi. Ég vil kappkosta að hafa sem best samstarf við alla þessa aðila. Kjör og starfsumhverfi er auðvitað stór þáttur í þessum samskiptum.