Löggæslan í Reykjavík

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 13:42:17 (742)

2001-10-18 13:42:17# 127. lþ. 15.95 fundur 80#B löggæslan í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér er hreyft alvarlegu máli og tölurnar í þeim skýrslum sem við höfum aðgang að tala sínu máli. Alvarlegum afbrotum fjölgar. Alvarlegum líkamsmeiðingum fjölgar. Og hvar? Aðallega á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst í miðbæ Reykjavíkur. Þó að hæstv. ráðherra hafi tilfinningu fyrir því að öryggi borgarbúa sé ,,nægilega mikið`` og sé ,,talsvert`` og því sé ,,ekki áfátt`` verð ég að segja, herra forseti, og vekja athygli á því að hæstv. ráðherra ferðast um bæinn varin í ráðherrabílnum sínum milli húsa á meðan við sem þurfum stöku sinnum að ganga í gegnum miðbæinn eftir að skyggja tekur erum dauðhrædd við það. Sannleikurinn er sá að fólk er orðið hrætt við að ganga í gegnum miðbæ Reykjavíkur að nóttu til og ég geri ráð fyrir, herra forseti, að lögreglan hafi beyg af því líka. Það er alveg ljóst að eftirlit inni á vínveitingastöðum er ekki nægilega mikið og lögreglan segir fullum fetum að hún veigri sér við að fara inn á vínveitingastaði í miðbæ Reykjavíkur til þess að sinna löggæslu vegna þess að um mannfæð er að ræða.

Samstarf milli borgaryfirvalda og ríkisins til að leysa þessi mál er algerlega nauðsynlegt og þó að samstarfsnefnd sé starfandi er samt verið að kalla eftir auknu samstarfi. Hæstv. ráðherra getur ekki hafnað því að þörf sé á auknu samstarfi á meðan við sjáum vandamálin hrannast upp og fara stækkandi. Tímabundinn rekstrarvandi sem hæstv. ráðherra viðurkennir að sé til staðar hjá embætti lögreglu í Reykjavík verður auðvitað ekki eingöngu leystur með fjárframlögum. Það skiptir verulegu máli að fólk taki til hendinni, tali saman og skilgreini löggæsluna í Reykjavík, hlutverk hennar og hvað það er sem upp á vantar til þess að hún verði fullnægjandi.