Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 15:02:25 (764)

2001-10-18 15:02:25# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það mun ekki reynast erfitt að sýna fram á að það er rétt sem ég sagði í upphafi máls míns vegna þess að um það eru til blaðagreinar frá þeim tíma. Ég mun reyna m.a. í þeirri ítarlegu og mjög svo nákvæmu vinnu sem mun fara fram í menntmn. --- það er vart hægt að sjá að veturinn muni endast okkur til að gera allt sem fram undan er --- að færa fram þessa ágætu grein svo að hv. þm. megi kynna sér þetta mál þó gamalt sé.

Það er mikill áhugi á boxi. Sérstaklega hafa félagar í einum af okkar ágætu stjórnmálaflokkum sýnt þessu máli mikinn áhuga. Ég veit að þeir sitja m.a. í stjórn í því bæjarfélagi sem ég bý í. Fyrir 17. júní í ár var borin í hús auglýsing um 17. júní hátíðahöldin. Eitt af því sem átti að vera til skemmtunar í bænum var barnabox. Það átti að horfa á börn berjast í hringnum, náttúrlega með þeim tækjum sem samkvæmt lögum eru bönnuð, boxhönskum og vonandi grímum, varla með sjóvettlingum.

Ég verð að segja að mér finnst þetta ekki til fyrirmyndar og mjög mikill slappleiki að slíkt skuli fara fram í landinu.