Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 15:28:34 (771)

2001-10-18 15:28:34# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[15:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að það er með miklum ólíkindum að menn skuli enn vera að eyða tíma í þetta mál og að menn skuli ekki hafa látið sér það að kenningu verða að við það er mjög mikil andstaða og það var fellt hér í atkvæðagreiðslu á Alþingi fyrir tveimur árum. Í aðalatriðum er samsetning Alþingis óbreytt og það er ekkert sérstakt sem gefur tilefni til að ætla að þetta mál njóti meiri stuðnings nú. Að sjálfsögðu er mönnum frjálst að halda áfram að berja höfðinu við steininn ef þeim er það þvílíkt sáluhjálparatriði, eins og það virðist vera hv. þm. Gunnari Birgissyni og félögum hans, að taka tíma Alþingis í þetta mikla þjóðþrifamál, eða hitt þó heldur.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnast þingmenn sem hér eru meðflutningsmenn geðlitlir frekar í þessum efnum, að láta teyma sig áfram út í þetta fen. Hafa menn nú ekkert þarfara við tímann að gera? Og eru engin þarfari umbótamál í þjóðfélaginu sem hv. þm. finna sig í til að beita orku sinni? Ég hef ekki kannað það, herra forseti, núna --- ég gerði það í fyrra --- og það kom í ljós að þetta var eina þingmálið sem hv. þm. Gunnar Birgisson, þessi mikli foringi sjálfstæðismanna í Reykjaneskjördæmi, hafði flutt. Nú er kjörtímabilið rúmlega hálfnað og það skyldi nú ekki enn standa svo að erindi þessa mikla leiðtoga sjálfstæðismanna í Kópavogi og á Reykjanesi hingað inn á Alþingi á öllu þessu kjörtímabili hafi verið það eitt að reyna að fá hér lögleyfða hnefaleika? Ja, það væru mikil tíðindi. Öll þúsundin á Reykjanesi hafa þá ekki til einskis kosið hann ef þetta verður hans mikla framlag hér, óskert, til löggjafarsamkundunnar í heil fjögur ár. Einhverjar fyrirspurnir kann hv. þm. að hafa lagt fram en a.m.k. stóðu mál þannig í fyrra að þetta var eina þingmálið, eina frv. eða eina tillagan, sem hv. þm. hafði flutt. Og mig undra þær áherslur, það verð ég að segja. Mig undra þær áherslur.

[15:30]

Nú veit ég að hv. þm. er mætur maður og hefur víða lagt gjörva hönd á plóginn. Hann er mikill framkvæmdamaður og ég held að ég hljóti þar af leiðandi að leyfa mér að segja að sennilega hefði hann betur haldið sig við vegagerðina en að standa í þessum ósköpum því ég get engan veginn flokkað það undir framfaramál í þjóðfélaginu að nudda áfram með þetta hér.

Þá verð ég líka að segja, herra forseti, að mig undrar mjög það skipulag á störfum þingsins sem við stöndum frammi fyrir í dag, að þessu máli er troðið hér inn í dagskrána á undan málum þeirra varaþingmanna sem við vitum að eru að fara af þingi í dag. Með því er auðvitað verið að gera eitt og ekkert nema eitt, það er í reynd verið að taka málfrelsið af þeim þingmönnum sem hefðu gjarnan viljað tjá sig í þessu máli. Menn gera það nefnilega ekki, af tillitssemi við þá varaþingmenn sem eiga eftir að mæla fyrir öðrum málum áður en þessum fundi lýkur. Þegar þar til viðbótar bætist að fyrir löngu var búið að koma þeirri ósk á framfæri frá einum þingflokki að hér yrði ekki fundahald mjög langt fram eftir degi af ástæðum sem eru venjubundnar og yfirleitt virtar, að fyrir dyrum stendur landsfundur sem hefst á morgun hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Þá er venjan, eins og þingmenn þekkja, að greiða fyrir slíku með því að hér séu ekki linnulaus fundahöld alveg ofan í landsfundina.

Ég mótmæli þessu, herra forseti. Ég get með engu móti skilið að þetta mál sé þannig vaxið og eigi að hafa þannig forgang umfram önnur mál, m.a. og ekki síst í ljósi þess að Alþingi er búið að fjalla rækilega og þinglega um þetta mál, taka það til nefndar, taka þar við umsögnum, afgreiða það aftur inn í deildina og fella það. Það er mönnum ekki nóg. Þetta mikla forgangsmál, af einhverjum undarlegum ástæðum, fær allt aðra meðhöndlun en hér um bil öll önnur þingmannamál. Tugum ef ekki hundruðum saman liggja góð mál, flutt af þingmönnum, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, óafgreidd í nefndum þingsins ár eftir ár. En ekki þetta. Nei. Það eru einhver þau sambönd við almættið hér á þinginu sem hv. 1. flutningsmaður hefur, eða stuðningsmenn hans, sem gera það að verkum að þetta mál er tekið allt öðrum tökum og troðið hér inn í dagskrána með þessum hætti til að reyna að koma því með sem minnstri umræðu til nefndar, að nota sér tillitssemi þingmanna við þá varaþingmenn sem hér eiga eftir að mæla fyrir málum. Þetta er ósmekklegt, herra forseti. Þetta er heldur óviðfelldið, svo ég noti nú orðalag sem er mjög í tísku um þessar mundir.

Ég mótmæli þessari framgöngu forsetanna. Ég tel að þeir séu ekki að sýna hér þá hlutlægni í fundarstjórninni sem eðlileg væri.

Um þetta mál, herra forseti, er náttúrlega margt að segja og flest af því er þegar sagt. Ég get því svo sem eins og síðasti hv. ræðumaður, sem hefur áður flutt mjög góðar, rökfastar ræður gegn þessu máli við umræður, og hefur talað þar ekki síst út frá sinni faglegu þekkingu, vísað til þess sem ég hef um þetta sagt og reynt að tína það til. Það litla sem ég hef kannski nýtt fram að færa eru hlutir sem mér áskotnuðust í sumar þegar ég var að spyrjast svolítið fyrir um stöðu þessara mála í sumum nálægum löndum. Það er kannski tvennt sem ég vil nefna, annars vegar þá hreyfingu sem komin er í Svíþjóð á að fara ekki í þessa átt, ekki að leyfa atvinnubox sem Svíar bönnuðu fyrir löngu síðan, nei, skoða heldur m.a. áhugamannabox og ýmsar aðrar sambærilegar íþróttir með það í huga að takmarka þær eða banna. Þar er hreyfingin komin í þá átt að fara frekar að fordæmi Íslendinga og banna boxið alveg, láta sér ekki nægja að banna bara atvinnuboxið. Þar hafa menn m.a. nefnt fleiri skyldar íþróttir, árásaríþróttir, þar sem um mikla snertingu iðkendanna er að ræða. Hv. þm. Gunnar Birgisson og fleiri stuðningsmenn málsins nefna mjög gjarnan að leyfa eigi þetta af því að hitt sé ekki bannað --- furðuleg röksemdafærsla. Það eru ekki rök fyrir því að leyfa hass þó að tóbak sé leyft. Það er ekki þannig, hv. þm. Gunnar Birgisson, eða hvað?

Það eru engin rök fyrir því að leyfa þetta þó að einhverjar aðrar hættulegar íþróttir séu kannski iðkaðar. Annars getum við líka skoðað þær og farið rækilega yfir hvort meiri ástæða sé til, af heilsufarsástæðum og jafnvel af uppeldis- og siðfræðilegum ástæðum, að leyfa eða banna ýmislegt sem er látið viðgangast. En ekki nota þá aumlegu röksemdafærslu að af því að ýmislegt annað sé leyfilegt eigi bara að leyfa þetta líka.

Hvar enda menn almennt í nálgun sinni á málum ef þeir nota þessa aðferð? Hvar endar sú vegferð? Ég bið hv. þm. að hugleiða það. Ætli verði þá ekki ansi margt leyft á endanum ef þetta eru orðnar frambærilegar röksemdir?

Ég hvet hv. þm. sem hafa ekki fyrir fram algjörlega óhagganlega sannfæringu á annan hvorn veginn í málinu en vilja kynna sér það og þá þróun sem hægt er að tala um að sé í umhverfinu að kynna sér t.d. það sem hefur verið að gerast í þessum efnum í Svíþjóð og fleiri Evrópulöndum. Ég hygg að Hollendingar hafi líka verið að skoða þessi mál. Og ég bendi mönnum á að skoða það sem Alþjóðasamtök lækna hafa látið frá sér fara um þessi mál, einmitt núna nýlega og þar á meðal á þessu ári. (Gripið fram í: Evrópusamtök.) Evrópusamtök lækna. Þar eru menn að herða baráttuna. Menn eru að herða baráttuna gegn boxinu og vilja að farið sé að fordæmi Íslendinga vegna þess að þetta sé íþrótt, ef íþrótt skyldi kalla, sem ekki eigi að leyfa --- það sé bara þannig.

Það getur vel verið að mönnum finnist það engu máli skipta. En á hverjum vilja menn þá taka mark þegar kemur að heilsufarslegum málefnum ef t.d. ekki Evrópusamtökum lækna? Þeir Evrópusinnar sem hér eru flutningsmenn hljóta a.m.k. að taka mikið mark á því þegar allt er gott sem kemur fram undir þessum formerkjum, Evrópu, ekki satt? (Gripið fram í: Hlustar þú þá?) Ég tek fullt mark á því. En ég skoða kost og löst á þeim hlutum sem eru evrópskir eins og öllum öðrum.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst þetta mál --- og það er gleðilegt, það er gott, það gerir mig bjartsýnni á að menn lendi ekki í þeirri vitleysu að fara að samþykkja þetta hér í einhverju fljótræði --- mér sýnist þetta mál vera að lenda í vaxandi mótbyr, og að þróunin í kringum okkur, bæði faglega og líka pólitískt, sé þannig að það sé að þyngjast fyrir fæti enda er nóg af öðrum ágætum íþróttum til þess að stunda og það þarf ekki að bæta þessu við.

Svo er náttúrlega alltaf spurningin um hvað er íþrótt og hvað ekki. Það er mikill misskilningur að alls staðar séu allir skapaðir hlutir leyfðir nema á Íslandi. Það er alls ekki svo. Ætli sumar íþróttirnar þættu ekki skrýtnar, og sennilega mundi fáum detta í hug að stunda þær, sem lesa má um í fornum bókum og þóttu ágætlega brúklegar í þá daga. En þá voru nú dálitlir pústrar og meiðingar eins og sögurnar bera með sér og sennilega dytti engum í hug að leyfa slíkt athæfi í dag.

Frekar er nú þróunin, held ég, í hina áttina, að við setjum okkur um þetta einhverjar skynsamlegar reglur og drögum þannig mörkin að ekki sé hættu á stórfelldum heilsuskaða boðið heim, og meiðingum af þessum toga sem hér eiga í hlut og eru mjög sérstaks eðlis, og ég sé ekki að nein ástæða sé til að vera að taka áhættu af. Ég bara sé það ekki.

Það er alveg ósambærilegt sem maður heyrir oft notað í þessari umræðu, að tilfallandi óhöpp og slys verði í hinum og þessum íþróttagreinum. Það er bara svoleiðis allt annar hlutur. Það er ekki frambærilegt að mínu mati að fara út í einhverja tölfræði af þeim toga vegna þess að það eru þó oftast ýmiss konar meiðsl sem stafa ekki af eðli sjálfrar íþróttarinnar. Það er ekki ætlun manna, eða á a.m.k. ekki að vera, að meiða menn í knattleikjum svo dæmi sé tekið þó að slíkt gerist auðvitað.

Herra forseti. Það er eins með mig og alla aðra þingmenn --- mér leiðist að lengja fundinn vegna þeirra varaþingmanna sem ég veit að eiga eftir að flytja mál sitt hér og ætla þar af leiðandi að (Gripið fram í.) leifa því sem eftir er af ræðutíma mínum hér í aðalatriðum. Það býður þó vonandi ekki heim þeim misskilningi að ég sé eitthvað að slaka á í baráttu minni gegn þessu máli. Ég mun gera allt sem ég mögulega get til að koma í veg fyrir að þessi vitleysa verði samþykkt.