Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 15:40:27 (772)

2001-10-18 15:40:27# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Flm. (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Mér finnst það á málflutningi þingmanna, sérstaklega vinstri grænna og síðasta ræðumanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að þeir séu á móti því að mál sem þeir eru á móti komi hér á dagskrá. Það er nú lýðræðið og afstaða hv. þm. kemur mér ekkert á óvart. Hann er á móti öllu, og hans flokkur. Hann er formaður afturhaldsflokksins á Íslandi. Það er von að hann komi hér og sé á móti þessu. Það er alveg ljóst. Ég tel þetta eitt af framfaramálunum. Það er nú svo merkilegt. En þau eru nú ekki mörg beysin málin sem hv. þm. hefur flutt hér úr þessu ræðupúlti og talað langt mál um. (Gripið fram í.)

Ef ég á að vera í vegagerðinni, hv. þm., held ég að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ætti að fara í sjónvarpið og sleppa því að vera hér á Alþingi, eða fara norður í Þistilfjörð og stunda kvikfjárrækt eða eitthvað slíkt. Ég ætla ekki að fara að tala um málið á þessum nótum en hann er vanur að hafa orðbragð um menn sem mér finnst ekki sæmandi. Það er kannski ekki slæmt gagnvart mér en gagnvart öðrum úr þessum stól, kollegum sínum hér í þinginu, sem er oft til skammar.

Tvennt vakti athygli mína. Ég hélt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði dottið á höfuðið. Hann vill leyfa hass og hann er orðinn Evrópusinni. Hann er orðinn Evrópusinni. Batnandi mönnum er best að lifa. En ég vil ekki leyfa hass.