Áhugamannahnefaleikar

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 15:44:18 (774)

2001-10-18 15:44:18# 127. lþ. 15.5 fundur 39. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. sagðist vera á móti öllu sem honum finnst vera rangt. Það er nú flest í þessum sal sem honum finnst rangt því hann er á móti öllu nema því sem hann flytur sjálfur eða hans flokkur.

En málið er þetta sem við erum að tala um: Eigum við að leyfa íþróttagrein? Og við erum að tala um að ólympískt box sé ekki hættulegra en aðrar íþróttagreinar. Það er búið að sýna fram á það hér með rökum, með rannsóknum hvað eftir annað. Það er alveg ljóst að ólympískt box er ekki hættulaust frekar en fótbolti. Ég man ekki betur en að hv. þm. hafi í fyrra verið hér í gifsi. Hann varð að setjast í sér stól og hann var þó í knattspyrnu í það skiptið. Það er engin íþrótt hættulaus.

Það er eins og við flutningsmenn séum hér af ásettu ráði að leggja til að leyfa íþrótt sem mundi valda þvílíkum áverkum og skaða. Það er ekki um það að ræða. Þetta er allt gert með góðum hug. Og það er gert líka til þess, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að fólk fái að velja þá íþrótt sem það vill stunda. En það náttúrlega er alveg bannorð í þínum hópi, bannorð.