Erfðafjárskattur

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 16:04:01 (778)

2001-10-18 16:04:01# 127. lþ. 15.12 fundur 134. mál: #A erfðafjárskattur# (matsverð fasteigna) frv., Flm. ÖHJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[16:04]

Flm. (Örlygur Hnefill Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um erfðafjárskatt, nr. 83/1994, með síðari breytingum.

1. gr. frv. er svohljóðandi:

,,Við A-lið 9. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Sé markaðsverð fasteignar talið lægra en fasteignamatsverð eignarinnar er erfingjum heimilt að óska eftir mati skv. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Er þá heimilt að leggja erfðafjárskatt á matsverð þannig fengið, enda fylgi slík matsgjörð, sem ekki er eldri en fjögurra vikna gömul, erfðafjárskýrslu skv. 1. mgr. 11. gr. Að öðru leyti gilda ákvæði II. kafla laga nr. 20/1991 um mat samkvæmt þessari grein.``

Með setningu laga um erfðafjárskatt, nr. 83/1984, voru lögbundnar reglur um greiðslu skatts til erfðafjársjóðs af öllum fjárverðmætum og fjármunaréttindum. Við setningu laganna var gengið út frá því að löggjafinn hefði sett reglur sem mismunuðu þegnunum ekki með tilliti til skattlagningar. En tímar breytast og þær reglur sem voru sanngjarnar og réttlátar við setningu geta snúist upp í andhverfu sína.

Á þeim tíma sem ákvörðun er tekin um það að miða í 9. gr. laga nr. 83/1984 við fasteignamatsverð til gjaldstofns erfðafjárskatts var um að ræða reglu sem telja má að verið hafi sanngjörn öllum þegnum þjóðfélagsins. Á þessum tíma má segja að undantekningalítið hafi söluverð eigna verið hærra en gildandi fasteignamatsverð, óháð því hvar á landinu eignir voru og því hvort þær voru í þéttbýli eða sveit. Nú er staðan hins vegar sannanlega önnur. Þeim dæmum fjölgar stöðugt, og þá sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, að ekki er hægt að selja eignir fyrir fasteignamatsverð. Með öðrum orðum er fasteignamatsverð, sem er gjaldstofn, í mörgum tilvikum orðið hærra, og það mikið hærra, en raunverulegt söluverð eignanna. Til eru einnig þau tilvik að ekki er hægt að koma viðkomandi eignum í verð. Því er ljóst að erfingjar geta staðið frammi fyrir því að þurfa að greiða umtalsverðan erfðafjárskatt af eign sem í raun er miklu minna virði.

Það er því þannig komið að mikið óréttlæti felst í skattlagningu sem byggð er á A-lið 9. gr. varðandi fasteignir og hallar þar mjög á landsbyggðina og erfingja eigna þar. Hins vegar er ljóst að í öðrum liðum greinarinnar er gert ráð fyrir að hægt sé að byggja á matsverði eða markaðsverði varðandi eignir sem þar er fjallað um. Má þar t.d. nefna bifreiðir. Það vitum við, herra forseti, að bifreiðir eru eftir tegundum jafnmikils virði, hvort sem þær eru í eign fólks á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu.

Frv. sem hér er flutt tel ég vera mikið réttlætismál. Ég tel það bæta úr þeim mismun sem skapast hefur milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Kemur þar til að fasteignir á landsbyggðinni hafa í auknum mæli selst undir fasteignamatsverði og skattstofninn hefur því ekki verið raunverðmæti eignanna. Um ástæður þess að fasteignaverð á landsbyggðinni hefur verið að lækka má margt segja, enda tel ég að stærsta hagsmunamál landsbyggðarinnar og landsbyggðarfólks sé að þeirri þróun verði snúið við og verðmæti eigna þess verði tryggt. Það segir sig sjálft að fólksfækkun á landsbyggðinni undanfarin ár hefur það í för með sér að fasteignir, eignir fólks á landsbyggðinni, lækka í verði.

Ástæður fólksfækkunarinnar eru margvíslegar. Atvinnuöryggið hefur verið að skerðast og er stjórnkerfi fiskveiða þar mikill áhrifavaldur að mínu mati. Veiðiheimildir flytjast milli staða, en fólk flytur inn á höfuðborgarsvæðið vegna þessa óöryggis. Opinberum störfum hefur fjölgað á höfuðborgarsvæðinu, en landsbyggðin hefur ekki notið fjölgunar á þeim störfum sem vissulega mundu treysta byggð þegar frumvinnslan er á undanhaldi.

Herra forseti. Þess ber þó að geta að þetta hefur verið fært til betri vegar með endurmati fasteigna þannig að þessir hlutir hafa verið færðir nær raunveruleikanum.

Ég hef lagt fram tvær fyrirspurnir á Alþingi til hæstv. félmrh. Önnur er fyrirspurn um útlán opinberra sjóða til nýbygginga, annars vegar á landsbyggðinni og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu og eins fyrirspurn um þróun fasteignaverðs á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu undanfarin 10 ár. Ég vona að þau svör geti skýrt þessa mynd betur.

Herra forseti. Betur má ef duga skal og laga þessa hluti því að raunveruleikinn er sá að verðmæti eigna getur verið langt undir þeim skattstofni fasteignamats sem lagður er til grundvallar og þá er um óréttláta skattlagningu að ræða.

Það má, herra forseti, í þessu sambandi benda á að nýlega er fallinn dómur Hæstaréttar sem var kveðinn upp fimmtudaginn 27. september sl. og var nr. 338/2001. Þar var um það að ræða að eign hafði verið seld á sjö milljónir en fasteignamat eignarinnar var 13.069 þús. Erfingjunum var gert að greiða skatt af sex milljónum umfram raunverulegt söluverð --- sex milljónum sem voru aldrei þeirra eign. Í því dæmi var erfingjum gert að greiða 3.481 þús., þ.e. af 13 milljónunum, í stað 1.932 þús., sem hefði verið ef skattstofninn hefði verið hin raunverulega eign, hið raunverulega verð og munar hér 1.548 þús. Ég þekki dæmi þar sem hafa komið tilboð í fasteignir sem hafa ekki einu sinni dugað til þess að greiða erfðafjárskattinn af þeim.

Herra forseti. Hér er einnig um það að ræða að á þeim döpru tímum sem viðkomandi fjölskyldur ganga í gegnum við andlát náinna skyldmenna, oftast foreldra, þá verður þessi skattlagning virk, þ.e. við flutning eignarréttarins á fasteigninni frá foreldrum til barna eða annarra eftirlifenda. Á slíkum sorgartímum er það slæmt ef eftirlifendur finna þau ósanngjörnu viðbrögð hins opinbera að skattlagning til ríkisins taki ekkert tillit til þess raunveruleika sem um er að ræða og þeirra raunverulegu verðmæta sem koma í hlut eftirlifenda. Þá er hér um að ræða mikla mismunum eftir því hvar skattandlagið er, þ.e. fasteignin, hvort hún er á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni.

Á það má einnig benda að í mörgum tilvikum ef ekki flestum hafa erfingjarnir, börnin, tekið virkan þátt í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fjölskyldunnar sem erfingjarnir þurfa svo að greiða af skatt.

Sú breyting sem lögð er til á lögum þessum er réttlætismál. Hér er gert ráð fyrir því að þegnarnir séu skattlagðir í samræmi við raunverulega eign sína en ekki út frá mati sem fylgir fasteignamatsverði um stóran hluta landsins. Þetta mál er því byggðamál jafnframt því að vera réttlætismál þegar svo er komið að fólk sem búsett er á ákveðnum stöðum landsins þarf að greiða hlutfallslega hærri skatta miðað við verðmæti en þeir sem búsettir eru eða erfa eignir t.d. á höfuðborgarsvæðinu, þar sem raunverð fasteigna sem betur fer hefur haldist hátt og umfram fasteignamatsverð.

Ég hef talið það sanngjarna reglu að miða við fasteignamatsverð á höfuðborgarsvæðinu, þó svo að raunverðið sé hærra. En þeim mun ósanngjarnari er hún eins og hún hefur verið, að koma niður á fólki sem á eignir á landsbyggðinni og erfir eignir þar.

Til að fullnægja réttlætinu í þessum efnum er lagt til að erfingjar geti valið að fá metnar fasteignir sem þeir erfa. Þá yrði miðað við að matið væri unnið og framkvæmt af matsmönnum sem sýslumenn tilnefna, samanber 17. og 18. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Og að varðandi mat þetta sé farið eftir ákvæðum II. kafla laga nr. 20/1991 eftir því sem við getur átt.

Til þess að ekki séu notuð gömul gögn varðandi þetta mat, er gert ráð fyrir því í frv. að slíkt mat megi ekki vera eldra en fjögurra vikna.

Herra forseti. Ég óska eftir því að þessu frv. verði vísað til hv. efh.- og viðskn.