Erfðafjárskattur

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 16:13:44 (779)

2001-10-18 16:13:44# 127. lþ. 15.12 fundur 134. mál: #A erfðafjárskattur# (matsverð fasteigna) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[16:13]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Það frv. til laga sem hv. 4. þm. Norðurl. e., Örlygur Hnefill Jónsson, hefur flutt er mjög merkilegt. Það tekur á miklu réttlætismáli, þ.e. breytingu sem varðar marga þegna þessa lands. Málið er flutt í framhaldi af því að lög frá hinu háa Alþingi hafa leitt til atvinnuháttabreytinga í landinu og nægir þar að nefna, t.d. bara lög um stjórn fiskveiða eða um landbúnað í landinu. Þau gera það að verkum að ójafnvægi hefur myndast líkt og hér er um fjallað, þ.e. munur á fasteignamati og söluverði eigna á Íslandi með tilliti til þess erfðafjárskatts.

Það er mikið réttlætismál að þetta frv. sé flutt hér. Það er jafnframt um mikið byggðamál að ræða og í raun mjög eðlilegt að hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson, þingmaður Samfylkingar í Norðurl. e., flytji þetta mál. Í raun hefur það verið svo nú um alllangan tíma að ýmsir þingmenn Samfylkingarinnar hafa verið í fararbroddi við að benda á það misrétti og órétti sem skapast hefur milli höfuðborgarbúa og landsbyggðarbúa. Þetta er einmitt enn eitt dæmið um það.

Ég hef áður sagt það að í mínum huga á að vera fullkomið jafnrétti allra þegna landsins, sama á hvaða sviði það er, hvort sem það er til að reka fyrirtæki, senda börn í nám eða til að hita hús sín, híbýli sín, sem oft á tíðum er gert eftir opinberum leiðum. Hið sama á að gilda um kosningar til Alþingis. Oft hefur verið talað um að þar ríki mikið óréttlæti og talað er um að íbúi á Vestfjörðum hafi ígildi tæplega fimm atkvæða á móti einu atkvæði höfuðborgarbúa. Þetta vil ég að sjálfsögðu að sé jafnað. Ég er jafnaðarmaður, ég er þingmaður Samfylkingarinnar, sem eru samtök jafnaðarmanna. Það er eiginlega undarlegt að frv. sem hér er til umræðu skuli ekki hafa komið mun fyrr fyrir hið háa Alþingi.

Dæmið sem hv. þm. fjallaði um hér áðan, um erfðafjárskatt, annars vegar miðað við fasteignamatsverð húsnæðis og hins vegar söluverð, sýndi náttúrlega stórkostlega mikinn mun. Það getur ekki verið sanngjarnt að erfingjar skuli þurfa að leggja út svo mikla peninga, eingöngu vegna þess að þeir hafi erft húsnæði sem e.t.v. er orðið mjög gamalt. Í lifanda lífi hafði hinn látni kannski ekki tök á að halda við fasteigninni, m.a. vegna þess að margt eldra fólk hefur varla til hnífs og skeiðar af bótum sínum. Viðkomandi hafði kannski ekki unnið á fullu og hafði jafnvel ekki vinnu meðan lífeyriskerfið var að verða til og hafði jafnvel lélegan lífeyri síðustu árin. Allt þetta kemur að þessu máli.

Í þessum dúr hafa menn rætt um þessi mál. Ég vil bæta þar aðeins við, herra forseti. Ég get rétt ímyndað mér að til séu mörg dæmi um sveitabýli þar sem fólk deyr drottni sínum frá eigninni og erfingjarnir eiga að taka við. Eignin selst þá jafnvel ekki vegna búháttabreytinga og enginn vill taka við búi í dag. Þetta er því mikið réttlætismál sem hér er flutt og á hv. þm. þakkir skildar fyrir að hreyfa því og flytja það meðan hann situr hér sem varaþingmaður. Eiginlega má segja að það mættu margir aðalþingmenn vera ánægðir ef þeir væru búnir að flytja jafnmörg mál og hv. þm. hefur gert hér, að hafa hreyft jafnmiklu réttlætismáli og hér hefur verið flutt. Ég held að formaður okkar jafnaðarmanna megi vera stoltur af þessum varaþingmanni sínum sem flutt hefur þetta frv.