Milliliðalaust lýðræði

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 16:48:30 (785)

2001-10-18 16:48:30# 127. lþ. 15.13 fundur 144. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[16:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég held að ég halli ekki á neinn af þeim sem hér sitja að jafnaði með mér í þessum sölum þegar ég segi að við sem ekki erum varaþingmenn heldur aðalþingmenn getum margt lært af þeim prýðilegu varaþingmönnum sem hér hafa komið í ræðustól í dag. Ég er þá ekki bara að tala um þá tillögu sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar hefur flutt hér og félagi hans og okkar í Samfylkingunni, hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson, heldur eru síðar í dag á dagskrá ákaflega merkilegar tillögur frá varaþingmönnum annarra flokka, sem ég vænti líka að verði fróðlegar umræður um. Ég tel að gæði þeirra tillagna og greinargerða sem með fylgja eigi það sammerkt að vera talsvert meiri en yfirleitt er að finna í þessum sölum. Þetta segi ég nú ekki til þess að hnika niður félögum mínum í þinginu, heldur miklu frekar til þess að benda á hve öflugt lið varaþingmanna við höfum á þingi.

Herra forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur hér lagt fram tillögu sem er ákaflega merkileg, um milliliðalaust lýðræði. Ég held að á engan sé hallað með að sú framsaga sem hann hafði með þeirri tillögu og greinargerðin sem henni fylgdi sé í alla staði óvanalega vönduð. Sá fróðleikur sem þar er saman dreginn um lýðræðið, þróun lýðræðisins og þá möguleika sem tækni nútímans gerir okkur kleift að brúka til þess að bæta og dýpka lýðræðið, er mikilsverður.

Þetta, herra forseti, speglar líka vissan mun á stefnu okkar í Samfylkingunni og stefnu annarra flokka, t.d. Sjálfstfl. Það er athyglisvert að á þeim degi sem við ræðum hér tillögu þingmanns Samfylkingarinnar um milliliðalaust lýðræði þá eru örfáir dagar liðnir frá því að Sjálfstfl. hélt landsfund þar sem samþykkt var, með nokkuð þéttum meiri hluta ef ég man rétt, tillaga um að menn skuli ekki beita rafrænum kosningum. Með öðrum orðum: Ég skil þá tillögu þannig að Sjálfstfl. vilji hverfa frá nútímanum, hverfa frá því að nota þá tækni sem til er orðin vegna þess að í þeim flokki sjá menn lýðræðið með allt öðrum augum en t.d. í Samfylkingunni.

Nú er það svo, herra forseti, að í þessum sal sem ég horfi yfir sé ég að vísu engan þingmann Sjálfstfl. mættan. Það er því kannski umhendis af mér og ekki ákaflega nærgætið að ræða við fjarstaddan stjórnmálaflokk um skort hans á skilningi á eðli lýðræðisins. En það er eigi að síður þannig, herra forseti, að þessi tillaga stendur ekki ein. Samfylkingin hefur lagt mikla áherslu á að þróa umræðu í landinu um lýðræðið. Við höfum lagt hér fram hvert þingmálið á fætur öðru sem er beinlínis sett fram til þess að styðja undirstöður lýðræðisins í landinu.

Það er einfaldlega þannig, herra forseti, að þegar einn stjórnmálaflokkur er hefur lengi setið við völd og hefur læst klóm valdsins svo að segja í hverja einustu stofnun samfélagsins, eins og Sjálfstfl. hefur gert á síðustu árum, og við höfum þó kannski séð hvað jafnátakanlegast á allra síðustu vikum og jafnvel dögum þegar hæstv. forsrh., formaður flokksins, reynir jafnvel að skipa fjölmiðlum fyrir um hverja þeir megi tala við og hverja ekki, þá er það auðvitað hlutverk flokks eins og okkar, jafnaðarmanna, að reyna að vega þar á móti. Þess vegna höfum við lagt hér fram hvert þingmálið á fætur öðru sem miðar að því að styrkja lýðræðið. Við erum t.d. að leggja fram á næstunni þingmál sem miðar að því að gera landið að einu kjördæmi. Með því erum við að reyna að hrinda í framkvæmd því gamla kjörorði jafnaðarmanna: Einn maður -- eitt atkvæði. Þetta eru grundvallarmannréttindi, herra forseti. Ég tel sjálfur að lýðræði hér á landi geti aldrei talist fullkomnað fyrr en búið er að ganga frá þessu.

Við höfum líka lagt fram anga af því sem hér er lagt til. Ár eftir ár hafa þingmenn Samfylkingarinnar, undir forustu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, lagt fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það tengist auðvitað þessu. Við höfum lagt fram fjölmörg mál sem miða að því að styrkja löggjafarsamkunduna og stemma framrás framvæmdarvaldsins sem í hverju málinu á fætur öðru þrengir að löggjafanum. Þess vegna hafa þingmenn Samfylkingarinnar lagt fram tillögur um að þingið fái tæki til þess að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og sinna eftirlitsskyldu. Við höfum lagt fram tillögur um að teknar verði upp opnar rannsóknarnefndir af hálfu þingsins. Við teljum auðvitað, herra forseti, að það sé forsenda þess að hægt sé að treysta stöðu löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Fyrr í dag lagði hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson fram ákaflega merkilegt þingmál sem einmitt miðar að því að styrkja eftirlit Alþingis með framkvæmdarvaldinu, þ.e. reyna að stemma þessa ótrúlegu fíkn framkvæmdarvaldsins til að veita sjálfu sér heimildir til að setja reglugerðir um hvaðeina sem oft styðjast við hæpin lög. Svona gæti ég talið hvert málið á fætur öðru, herra forseti.

Það mál sem hér er lagt fram af þingmönnum Samfylkingarinnar, með hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson í broddi fylkingar, um milliliðalaust lýðræði, er þess vegna hluti af ákveðinni lífssýn jafnaðarmanna, hluti af lífssýn Samfylkingarinnar. Það má vel vera að þau mál, þó að samþykkt væru í skyndingu, mundu ekki gjörbreyta samfélaginu. Það er hins vegar ljóst að þau miða að því að styrkja það sem þetta samfélag og innviðir þess hvíla á, þ.e. lýðræði.

Herra forseti. Tæknin gerir það að verkum að við sjáum djarfa fyrir nýrri framtíð þar sem mönnum verður betur gert kleift en áður að hafa bein áhrif á sinn eigin hag og eigin framtíð.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson rakti það m.a. í sinni frábæru ræðu áðan hvernig breyttar aðstæður gera það að verkum að við þurfum ekki í dag, eða ættum ekki að þurfa í eins ríkum mæli og áður, að hvíla á stoðum fulltrúalýðræðisins. Auðvitað var það þannig áður að menn höfðu ekki tök á að kynna sér mál til hlítar. Þess vegna fólu menn fulltrúum sínum að taka ákvarðanir. Þessi röksemd er slegin burt með tilkomu netsins. Enginn þingmaður í þessum sal á meiri möguleika en almennur borgari úti í samfélaginu á að kynna sér til hlítar flókin mál vegna tilkomu netsins. Samgöngur áður fyrr komu líka í veg fyrir að menn gætu farið á kjörstað til þess að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er einnig liðin tíð. Hafi sú röksemd haft eitthvað undir sér þá er hún líka fallin með þeim möguleika sem hv. þm. hefur reifað hér og lýst með dæmum hvernig menn hafa notað netið til kosninga.

Ég held, herra forseti, að það sé frábær hugmynd sem hér kemur fram og hún gæti gert það að verkum að við gætum gert Ísland að þeirri tilraunastofu sem formaður Alþýðuflokksins forðum lagði til, Jón Baldvin Hannibalsson. Þessi leið felst í því að við tökum upp, með þeim hætti sem hv. þm. lagði hér til, kosningar á netinu. Samhliða mundum við líka hafa kosningar með hefðbundnu sniði. Það á að koma í veg fyrir að, herra forseti, að einhver fari hallur í því kerfi og einhver geti ekki séð sér fært að taka þátt í kosningum.