Milliliðalaust lýðræði

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 16:57:01 (786)

2001-10-18 16:57:01# 127. lþ. 15.13 fundur 144. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[16:57]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, 7. þm. Reykv., hélt því fram hér áðan að með því að gera landið að einu kjördæmi þá mundi fulltrúalýðræðið styrkjast og sjálfstæði Alþingis verða meira.

Mig langaði til að spyrja hv. þm. hvernig hann sæi fyrir sér að valið yrði á lista fyrir allt landið þannig að það tryggði frekar að fulltrúalýðræðið styrktist. Eins og þetta er í dag þá er það víða þannig að kjördæmin ákveða sjálf hvernig listarnir líta út í prófkjörum og fólkið í kjördæminu tekur þá ákvörðun með lýðræðislegri kosningu í prófkjöri. Ef landið yrði eitt kjördæmi yrði væntanlega einn listi. Hver mundi ákveða niðurröðun á þann lista? Væri það ekki flokksformaðurinn sjálfur og hans nánustu menn sem mundu ákveða hverjir sætu á þeim lista og þá væntanlega velja þá sem væru þeim fylgispakir? Þar með réðu þeir einir því hvernig störf flokksins mundu þróast.

Það hafa oft áður komið upp hugmyndir, herra forseti, um að gera landið að einu kjördæmi. Menn hafa haldið að það mundi bjarga fulltrúalýðræðinu en það eru kannski mun fleiri rök sem benda til þess að fulltrúalýðræðinu yrði mun hættara með því að hafa landið eitt kjördæmi og einn lista.