Persónuafsláttur barna

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 17:05:27 (790)

2001-10-18 17:05:27# 127. lþ. 15.14 fundur 151. mál: #A persónuafsláttur barna# þál., Flm. ÁHösk (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[17:05]

Flm. (Ármann Höskuldsson):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari mælist Alþingi til þess að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd til að undirbúa breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þannig að foreldrar njóti 50% persónuafsláttar fyrir hvert barna sinna.

Herra forseti. Þjóðinni er það mikilvægt að að halda jöfnum og jákvæðum vexti svo að jafnvægi aldurssamsetningar hennar raskist ekki. Til þess að svo megi vera er mikilvægt að ríkisvaldið taki af skarið og byggi upp skattkerfið þannig að tillit sé tekið til barnafjölskyldna. Öllum má vera það ljóst að barnafjölskyldur verða fyrir hlutfallslega meiri útgjöldum en einstaklingar og barnlausir sambýlingar. Tekjutenging barnabóta er enn óeðlilega mikil, sem kemur best fram í því að fyrirvinnur barnamargra fjölskyldna þurfa að vinna meira til að metta munnana. Þannig brjóta þær fljótt launamúrinn sem notaður er til viðmiðunar barnabóta.

Herra forseti. Kerfið hefur því í raun snúist upp í andstöðu gagnvart fjölskyldum í landinu, smáum sem stórum. Hagstætt skattaumhverfi til handa barnafjölskyldum er engu þýðingarminna fyrir þjóðarhag en hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja. Því að í raun eru fyrirtækin í landinu fjölskyldurnar sem allt annað byggir á.

Í dag eru slagorð eins og ,,launahvetjandi umhverfi`` algeng í íslensku samfélagi. Hins vegar tel ég að tími sé kominn til þess að Alþingi taki upp hvetjandi skattaumhverfi til handa fjölskyldum í landinu. Fólksfjölgun á Íslandi var á milli ára 1999 og 2000 um 1,48% sem er töluverð lækkun ef við miðum við fólksfjölgun milli áranna 1987 og 1988 sem var um 1,75%. Ef við lítum á tölur frá Hagstofunni um fæðingar á árunum 1986--1990, er meðaltalið um 17,7 fæðingar á hverja 1.000 íbúa. Þessi tala hefur farið lækkandi allt frá upptöku staðgreiðslukerfis skatta. Þannig er hún um 17,1 á árunum 1991--1995 og komin niður í 15,3 á árinu 1997.

Nágrannaþjóðir okkar hafa margar hvetjandi skattkerfi til handa barnafjölskyldum. Frakkar veita foreldrum hálfan persónuafslátt fyrir fyrstu tvö börn sín og síðan einn heilan fyrir hvert barn umfram það. Bretar taka ekki virðisaukaskatt af vörum er tengjast barnauppeldi og styðja þannig við fjölskylduna, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Á Íslandi var skattafsláttur vegna barna afnuminn með staðgreiðslukerfi skatta og hefur ekki komið inn síðan. Það er þó ástæða til að fagna barnakortum sem framsóknarmenn áttu forustu um að lögleiða á síðasta þingi.

Herra forseti. Framtíð þjóðarinnar byggir ekki hvað síst á eðlilegri fjölgun hennar. Í nútíð skal byggja ef framtíð skal tryggja.

Að lokum, herra forseti, vonast ég til að þáltill. þessi fái farsæla afgreiðslu í þinginu og henni verði vísað til hv. efh.- og viðskn.