Persónuafsláttur barna

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 17:08:50 (791)

2001-10-18 17:08:50# 127. lþ. 15.14 fundur 151. mál: #A persónuafsláttur barna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[17:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til þess að fjalla eilítið um þá tillögu sem hér er flutt af hv. þm. Ármanni Höskuldssyni, um persónuafslátt barna. Ég fagna því sem fram kemur í þessari tillögu. Hún miðar að því að bæta skattaumhverfi barnafjölskyldna með því að foreldrar njóti 50% persónuafsláttar fyrir hvert barna sinna.

Ég hygg að það sé ljóst að hér á landi látum við miklu minna fjármagn til velferðarmála og málefna barna en þjóðir sem við berum okkur saman við. Það er vissulega hægt að taka undir það með hv. þm. að skattkerfið sem við búum við er alls ekki hvetjandi fyrir barnafjölskyldur. Reyndar er það svo, þegar maður lítur til liðinna ára, að það sé frekar letjandi en hitt.

Ég minni á að 1995 voru t.d. barnabætur miklu hagstæðari barnafjölskyldum en þær eru nú. Á því gerði ríkisstjórnin að vísu nokkra bragarbót á síðasta þingi í kjölfar kjarasamninga, þar sem auka átti við barnabæturnar á næstu þremur árum. En eigi að síður verður barnabótakerfið að þremur árum liðnum, þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda, ekki eins hagstætt og það var 1995.

Þetta dreg ég hér fram við þessa umræðu til að sýna að það er frekar afturför í þessu en hitt. Þá var ótekjutengdi hluti barnabótanna hagstæður barnafjölskyldum að því leyti að hann gekk þó upp til 16 ára aldurs en nú gengur ótekjutengdi hluti barnabótanna, 33 þús. kr. ef ég man rétt, til barna fram að 7 ára aldri. Þar fyrir utan er hann lægri nú, 33 þús. kr., en hann var á árinu 1995 en þá var hann um 40 þús. kr.

Við þurfum því að gera miklu betur en við höfum gert, vegna þess að ég er alveg sannfærð um að það að gera vel við barnafjölskyldur, t.d. eftir þeirri leið sem hv. þm. mælir fyrir, mun styrkja mjög fjölskyldurnar í landinu. Það mun að mínu viti ekki hafa í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð sem ekki skilar sér aftur með einum eða öðrum hætti. Það að gera ekki vel við barnafjölskyldur í landinu skapar bara ýmis félagsleg vandamál, bæði í félagskerfinu og heilbrigðiskerfinu.

Framsóknarmenn hafa vissulega verið með ágætar hugmyndir, eins og barnakort í síðustu kosningum og þá hugmynd sem hv. þm. leggur nú fram, um 50% persónuafslátt fyrir hvert barn. En þeir eru í vondum félagsskap, þeir eru í félagsskap með Sjálfstfl. Ég þekki það af eigin reynslu að það er erfitt að vinna að umbótum í velferðarmálum í ríkisstjórn með Sjálfstfl. Þess vegna hef ég skilning á því þegar ég sé að þetta gengur erfiðlega hjá framsóknarmönnum, þó viljann vanti ekki eins og þessi tillaga ber með sér.

Nú geri ég mér ekki alveg grein fyrir því með því að lesa þessa tillögu eða hlusta á ágæta framsöguræðu þingmannsins hvernig hann hugsar sér þennan 50% persónuafslátt. Ég vil þó í þessu sambandi minna á að ég hef á a.m.k. þremur eða fjórum þingum flutt tillögu um að nýta megi ónýttan persónuafslátt barna að 80% hluta, þ.e. barna frá 16--19 ára aldurs að báðum árum meðtöldum. Þar er um þó nokkuð miklar fjárhæðir að ræða. Þegar ég var að skoða þetta fyrir svona þremur fjórum árum voru um 2,5 milljarðar kr. ónýttur persónuafsláttur barna. Manni finnst það nokkuð klént, nú þegar persónuafsláttur er orðinn millifæranlegur að fullu milli hjóna, að einstæðir foreldrar t.d. geti ekki nýtt sér ónýttan persónuafslátt barna sinna.

Það þarf ekki að hafa mörg orð, herra forseti, um að þegar ein fyrirvinna er fyrir fjölskyldu, kannski einstæð móðir með tvö eða þrjú börn, þá fylgja þeim gífurleg útgjöld og kannski litlar tekjur. Við vitum að útgjöld fjölskyldna vegna unglinga eru jafnvel meiri en vegna yngri barna. Þess vegna hefur mér alltaf fundist það mikið réttlætismál að tekjulágar barnafjölskyldur, ekki síst einstæðir foreldrar, megi nýta ónýttan persónuafslátt barna sinna.

Þetta er sama hugsun og býr að baki hjá hv. þm. þar sem hann talar um að foreldrar fái 50% persónuafslátt fyrir hvert barna sinna. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. --- hann leiðréttir mig þá ef svo er ekki --- sé með hugmyndir um að sá persónuafsláttur sem fólk getur nýtt sér, sé 50% af þeirri fjárhæð sem hvert barn má nýta. Það væri fróðlegt að vita hvort einhverjir útreikningar liggja að baki þessu, hvaða útgjöld þetta hefur í för með sér og hvort þetta sé sama hugsun og ég setti fram sem býr að baki þessari tillögu hjá hv. þm.

Ég vona sannarlega að þessi tillaga fái góða umfjöllun í þeirri nefnd sem hún fer til. Ég geri ráð fyrir því, þar sem þetta er skattamál, að málið fari til efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti. Ég geri einnig ráð fyrir því að hv. þm. hafi allan Framsfl. að baki sér í þessu máli. Ég hygg því að um þetta mál og það sem ég hef flutt getum við náð samstöðu. Þá kæmi fljótt í ljós hvort farin yrði sú leið sem ég nefndi um nýtingu á ónýttum persónuafslætti eða sú leið sem hv. þm. leggur til. Ég tel að við getum náð góðri samstöðu um það með framsóknarmönnum í efh.- og viðskn.

Herra forseti. Þar með er örugglega kominn drjúgur meiri hluti fyrir þessu máli hér á þingi. Ég veit að stjórnarandstaðan mun styðja þetta mál. Ég geri mér svo sannarlega vonir um að um þetta mál, ásamt þeirri leið sem ég nefndi, getum við náð samstöðu með framsóknarmönnum. Þannig gætu barnafjölskyldur átt von á verulegri búbót á þessu þingi og bættum hag. Við erum sammála um það, stór meiri hluti hér á þinginu, að bæta þurfi kjör og aðbúnað barnafjölskyldna hér á landi.