Svæðisskipulag fyrir landið allt

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 17:17:05 (792)

2001-10-18 17:17:05# 127. lþ. 15.15 fundur 157. mál: #A svæðisskipulag fyrir landið allt# þál., Flm. ÓV (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[17:17]

Flm. (Ólöf Guðný Valdimarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um gerð svæðisskipulags fyrir landið allt. Í tillögunni er lagt til að umhvrh. hlutist til um að gert verði svæðisskipulag fyrir þau svæði á landinu sem ekki hafa þegar verið skipulögð og að kannað verði með hvaða hætti verði komið til móts við sveitarfélögin til að standa straum af kostnaði við skipulagsgerðina umfram það sem kveðið er á um í skipulagslögum.

Markmiðið með tillögunni er að tryggja að fyrir liggi skipulagsáætlun fyrir landið í heild.

Mikið hefur verið rætt um byggðaþróun og hvernig bregðast megi við þeim vanda sem fylgir stórfelldum búferlaflutningum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Gripið hefur verið til aðgerða á ýmsum sviðum, og er það vel. Gerð hefur verið metnaðarfull byggðaáætlun og fleiri áætlanir sem ætlaðar eru til að bregðast við vandanum og snúa þróuninni við. Oft miðast þessar áætlanir við afmarkaða þætti byggðaþróunar og eru úr heildarsamhengi. Í þeim er verið að taka á einstökum málaflokkum án þess að meta áhrif, jákvæð eða neikvæð, á aðra þætti. Sjaldnast er kannað hvaða áhrif aðgerð í einni atvinnugrein getur haft á aðrar atvinnugreinar eða hver áhrif aðgerða á einum stað, t.d. í einum landshluta, geta verið á aðra landshluta eða landið í heild.

Það er því afar mikilvægt að gerð sé skipulagsáætlun fyrir landið allt, eða fyrir öll svæði á landinu, áætlun sem tekur á heildstæðan hátt á öllum samfélagsþáttum sem varða búsetu og byggðaþróun, áætlun sem er forsenda fyrir því að hægt sé að bera saman og meta mismunandi hugmyndir og kosti og áhrif þeirra á samfélagið til lengri eða skemmri tíma. Þannig er hægt að auðvelda ákvarðanatöku og gera hana markvissari á öllum stigum stjórnsýslunnar. Og þannig er best tryggt að ákvarðanataka skili þeim árangri sem henni var ætlað í upphafi.

Í 1. gr. skipulags- og byggingarlaga segir m.a., með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er:

að þróun byggðar og landnotkunar á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir sem hafi efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi,

að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi,

að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.``

Samkvæmt lögunum er allt landið skipulagsskylt og skulu öll sveitarfélög hafa gert aðalskipulag í árslok 2007. Vel hefur verið unnið að skipulagsmálum í mörgum sveitarfélögum en mörg sveitarfélög hafa ekki enn þá neina heildstæða skipulagsáætlun að vinna eftir. Þetta á einkum við um dreifðari byggðir landsins. Ég þori að fullyrða að skipulagsáætlun auðveldar jákvæða byggðaþróun. Ég veit að flestir sveitarstjórnarmenn gera sér grein fyrir þessu en mörg sveitarfélög hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að láta vinna þessa vinnu. Því tel ég að aðstoð við svæðisskipulagsgerð komi þessum sveitarfélögum betur en mörg önnur aðstoð og sé í raun undirstöðuatriði fyrir endurskipulagningu á uppbyggingu á landsbyggðinni.

Svæðisskipulag er skipulagsáætlun sem varðar fleiri en eitt sveitarfélag. Hlutverk svæðisskipulags er að samræma stefnu um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar á svæðinu á minnst 12 ára tímabili.

Og hvað þýðir þetta?

Herra forseti. Þetta þýðir að mótuð er heildarstefna um hvernig menn vilja sjá byggðina sína þróast og tengjast nágrannabyggðarlögum á 12 ára tímabili. Þannig geri menn sér grein fyrir þeim möguleikum og tækifærum sem felast í hverju byggðarlagi, hvar eigi að styrkja þéttbýli, hvar bestu skilyrði fyrir landbúnað séu, hvar land eigi að vera ósnortið, hvar verslun og þjónusta eigi að vera, hvernig skynsamlegt sé að byggja upp menntakerfið, hvernig þeir vilji sjá samgöngur þróast innan einstakra svæða og milli svæða, hvar þeir ætli að gera ráð fyrir auknum íbúafjölda og byggja upp með tilliti til þess.

Ótal spurningar vakna og leitað verður svara og lausna sem eru mótaðar á viðkomandi svæðum í samvinnu við og með þátttöku íbúanna sjálfra. Þannig er mótuð heildaráætlun til að taka á vanda fólksfækkunar og snúa byggðaþróun með vitund íbúanna og möguleikum þeirra til að hafa áhrif á þróunina. Það tel ég afar mikilvægt.

Það er ljóst, eins og málin hafa þróast, að ekki er hægt að gera áætlanir um að fjölga íbúum og atvinnutækifærum á öllum stöðum á landinu umsvifalaust. Það er því mikilvægt að menn komi sér saman um hvernig skynsamlegt sé að byggð þróist á landinu öllu og til hvaða heildstæðu aðgerða þurfi að grípa til að ná þeim markmiðum. Þetta er ekki síst mikilvægt í sambandi við sameiningu og stækkun sveitarfélaga, og er til þess fallið að skapa sátt um viðkvæmar aðgerðir í byggðamálum. Ómarkvissar og handahófskenndar ákvarðanir og aðgerðir í byggðamálum eru til þess fallnar að auka óvissu og óánægju, auk þess sem þær leiða í flestum tilfellum til óhóflegra og óþarfra útgjalda. Sem sagt, tilraunastarfsemi í byggðamálum er kostnaðarsöm og skilar í flestum tilfellum litlum árangri.

Nú kunna einhverjir að hugsa sem svo: Hvað kemur skipulagsgerð Alþingi við? Skipulagsgerð er á hendi sveitarfélaganna og þau geta gert svæðisskipulag ef þau vilja. Það er rétt að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum skal skipulag gert að frumkvæði sveitarstjórna eða Skipulagsstofnunar.

Herra forseti. Á efri stigum stjórnsýslunnar er verið að móta lagaramma og taka mikilvægar og afdrifaríkar ákvarðanir í ýmsum málum er varða sveitarfélögin og búsetu á landsbyggðinni. Það er því að mínu mati bráðnauðsynlegt fyrir þá sem taka ákvarðanir á þeim stigum að fyrir liggi skipulagsáætlun sem tryggir skynsamlega nýtingu lands og tekur á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum þeirra sem búa á viðkomandi svæðum.

Ef við tökum sem dæmi samgöngumál gæti verið afskaplega þarft fyrir stjórnvöld að heimamenn væru búnir að koma sér saman um heildstæða áætlun um hvernig þeir vildu sjá samgöngumálin þróast á næstu 12 árum með tilliti til annarra þátta í byggðaþróun, í stað þess að allir séu að reyna að koma sínum vegarspotta á vegaáætlun. Þannig er einnig auðveldara að forgangsraða verkefnum í sátt og stýra fjárútlátum.

Nýlega var svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið kynnt. Í tengslum við vinnu þess vöknuðu spurningar sem vöktu íbúana til umhugsunar og vöktu áhuga þeirra á að taka þátt í umræðunni og hafa áhrif á framvindu mála. Umræðan um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar var svo öflug að efnt var til sérstakrar atkvæðagreiðslu um tilvist hans. Öll slík umræða er jákvæð og gagnleg fyrir byggðarlag og hvetur til áhuga á að vera virkur þátttakandi í að móta umhverfið og samfélagið. Jafnframt vaknar ábyrgðartilfinningin gagnvart samfélaginu. Einstaklingurinn verður mikilvægur hlekkur í þróun þess.

Nú eru haldnir fundir þar sem kostir tillögunnar eru kynntir og dregnir fram þeir jákvæðu þættir sem höfuðborgarsvæðið mun hafa upp á að bjóða á komandi árum. Svona umræða vekur í flestum tilfellum áhuga og löngun til að verða hluti af þessu samfélagi. Slík umræða þarf að mínu mati að fara fram á öllu landinu, umræða um framtíðarþróun hvers byggðarlags, byggð á skipulagsáætlun þar sem fram koma framtíðaráform um uppbyggingu og dregnir eru fram kostir þess að búa á viðkomandi svæði.

Jákvæð umræða er mikilvægur þáttur í byggðastefnu. Í dag einskorðast umræðan mikið við að bjarga byggðum landsins úr vanda. Skilaboðin þurfa að vera: Hér er eitthvað að gerast, hér ætlum við að byggja upp, hér er framtíð. Þannig veit ég að margir íbúar á landsbyggðinni hugsa og þannig byggðastefnu þurfum við að halda á lofti.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þeim meginforsendum sem liggja að baki þáltill. um að leggja til við Alþingi Íslendinga að umhvrh. hlutist til um að gert verði svæðisskipulag fyrir þau svæði á landinu sem ekki hafa þegar verið skipulögð. Með því á ég við að umhvrh. hafi frumkvæði að því að sveitarfélögin hefji þessa vinnu og auðveldi þeim undirbúninginn með upplýsingum og ráðgjöf. Þá tel ég einnig mikilvægt að kannað verði með hvaða hætti hægt sé að koma fjárhagslega til móts við sveitarfélögin til að gera þeim kleift að sinna þessu mikilvæga verkefni. Eins og flestir vita eru þau mörg mjög misjafnlega í stakk búin til að taka á sig auknar fjárhagsskuldbindingar.

Að svo mæltu, herra forseti, óska ég eftir að málinu verði vísað til hv. umhvn. að lokinni 1. umr.