Svæðisskipulag fyrir landið allt

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 17:40:47 (796)

2001-10-18 17:40:47# 127. lþ. 15.15 fundur 157. mál: #A svæðisskipulag fyrir landið allt# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[17:40]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er ekkert nýtt þó að ég komi í þennan stól og hrósi hv. þm. Framsfl. Ég er búinn að gera það árum saman eins og þingheimur veit. En hv. þm. Ólöf G. Valdimarsdóttir er kraftaverkakona því hún hefur leitt til þess að hér streyma þingmenn Vinstri grænna hver á fætur öðrum í ræðustól og mæra ekki bara hv. þm. heldur flokkinn allan og þó sérstaklega formann umhvn. sem í dag er hv. þm. Magnús Stefánsson ef ég man rétt. (Gripið fram í.) Ég veit ekki, herra forseti --- og þó gæti nú kannski herra forseti sagt mér eitthvað um það --- hvort þetta viti á eitthvað á landsfundi VG sem mér skilst að byrji á morgun og hvort það kunni þá að verða einhvers konar stefnubreyting í afstöðu flokksins til Framsfl. Ég skal ekkert um það segja.

Herra forseti. Ég kem hérna líka til þess að hrósa hv. þm. sem flytur þetta ágæta mál. Hún flutti fjölda raka í máli sínu fyrir því hvers vegna ætti að styðja þetta mál og koma því fram. Hún drap lítillega á náttúruvernd, þó einna minnst af öllum þeim ágætu rökum sem hún flutti. Ég held hins vegar að svæðisskipulag sé besta tækið sem við höfum. Skipulagstillögur af þessu tagi eru besta tækið sem við höfum til þess að koma fram jákvæðri stefnu um náttúruvernd. Ég tala sem gamall umhverfisráðherra sem barðist fyrir því árum saman að reyna að ná samkomulagi um friðlýsingar á tiltölulega smáum svæðum. Það var gríðarlega erfitt oft og tíðum vegna margvíslegs eignarhalds, vegna þess að menn einfaldlega voru á móti því og það þurfti ekki nema einn gikk í hverri veiðistöð til þess að koma í veg fyrir að hægt væri að ná friðlýsingu á tiltölulega smáum skikum í krafti þeirra laga sem þá giltu. Það er að vísu búið að breyta þeim örlítið varðandi þetta.

Ég var hins vegar líka þeirrar ánægju aðnjótandi að staðfesta fyrstu svæðisskipulögin og þá rann það allt í einu upp fyrir mér að þau voru tækin til þess að ná fram náttúruvernd. Þau knýja sveitarfélög til þess að vinna saman, oft sveitarfélög á stóru svæði. Oft er það þannig að það þarf einmitt slíka samvinnu til þess að ná fram samræmdri stefnu um náttúruvernd og það var niðurstaða mín að líkast til væri hægt að ná gríðarlegum árangri í náttúruvernd í gegnum svæðisskipulög og hætta einfaldlega að reyna að beita þeim lögum sem þá lágu fyrir. Ég veit að hv. þm. þekkir þetta ekki síður en ég, sennilega af gamalli reynslu, kannski ekki jafnbiturri og ég.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar, herra forseti, að fyrir þá sem vilja koma fram stefnu um náttúruvernd séu skipulagstillögur, svæðisskipulag, rétta aðferðin. Þess vegna segi ég að ég er ákaflega hlynntur því af þessum sökum að þessi tillaga nái fram að ganga.

Svo vil ég bara, herra forseti, taka undir góðar óskir hv. þm. Vinstri grænna um jákvætt hugarfar formanns umhvn. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur greinilega bundist einhvers konar pólitísku ástfóstri við þann góða mann því hún hefur fulla trú á því að þessi tillaga nái þar fram að ganga. Ég er ekki alveg jafnbjartsýnn og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir á það. Eigi að síður holar dropinn steininn og vera má auðvitað að hv. þm. Ólöf G. Valdimarsdóttir komist svo oft í þessa sali, án þess að ég sé að spá nokkru um framtíðina, að atgervi hennar og atfylgi dugi til þess að tillagan nái fram að ganga.