Svæðisskipulag fyrir landið allt

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 17:45:54 (798)

2001-10-18 17:45:54# 127. lþ. 15.15 fundur 157. mál: #A svæðisskipulag fyrir landið allt# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[17:45]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan veit ég að VG er að fara að halda landsfund sinn og auðvitað eru þau upptekin af því. En drottinn minn dýri, ég leyfi mér að vera algjörlega mótfallinn þeirri skoðun sem hér kom fram hjá hv. þm. að það séu einhver sérstök forréttindi að fá að vera í Framsfl. Það var ekki hægt að skilja hv. þm. öðruvísi en að hv. þm. Ólöf G. Valdimarsdóttir nyti þeirra einstöku fríðinda að fá að vera í sama flokki og hv. þm. Magnús Stefánsson.

Nú er hér staddur starfandi þingflokksformaður Framsfl. Ég er viss um að hann gæti af skyndingu rétt hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur litla umsókn um að ganga í Framsfl. og þá nýtur hún þessara sömu forréttinda og þá nær hún kannski fram öllum tillögunum sem hv. þm. virðist sitja á.

En gamanlaust, herra forseti, það sem ég held að skipti mestu máli varðandi þetta er að hér er um að ræða tillögu sem er ákaflega þörf og hana er hægt að skoða frá mörgum sjónarhornum. En hún er ekki bara tímabær heldur líka framsýn. Ég vænti þess að í krafti eigin gæða muni tillagan hljóta náð fyrir augum umhvn., ekki bara vegna þess að hv. formaður hennar er þeirra forréttinda aðnjótandi að fá að vera í sama flokki og hv. þm. Ólöf G. Valdimarsdóttir.