Svæðisskipulag fyrir landið allt

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 17:51:08 (801)

2001-10-18 17:51:08# 127. lþ. 15.15 fundur 157. mál: #A svæðisskipulag fyrir landið allt# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[17:51]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Skylt er skeggið hökunni. Það má ekki gleyma því að það var stofnandi Framsfl. sem á sínum tíma stofnaði þá hreyfingu jafnaðarmanna sem núna rennur aftur í sama farvegi. Að vísu eru nokkrar smálækjarsytrur til hliðar við hana.

Það ætti þess vegna ekki að koma hv. þm. Jóni Bjarnasyni neitt á óvart þó að ég minntist stundum þessa sameiginlega uppruna og mælti hlýlega til þessa flokks. Það er einfaldlega þannig að allir hafa til síns ágætis nokkuð, líka Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, líka hv. þm. Jón Bjarnason. Aftur og aftur hef ég nú komið í þennan stól til þess að mæra ágætar tillögur þess hv. þm. Hins vegar er það, herra forseti, eins og að nefna snöru í hengds manns húsi ef maður talar um Framsfl. við hv. þm. VG. Ég veit ekki af hverju þetta stafar og vil ekki leiða getum að því. Ég segi bara að ég fagna því að hv. þm. sér, eins og ég, margt jákvætt við þá tillögu sem við erum að ræða og svo bið ég hann bara afsökunar á því að hafa leyft mér að benda á þá staðreynd að hv. þm. VG eru komnir hérna í einhvers konar pólitískan leik turtildúfunnar við Framsfl. í aðdraganda landsfundar.