Stofnun þjóðgarðs um Heklu og nágrenni

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 17:55:03 (803)

2001-10-18 17:55:03# 127. lþ. 15.16 fundur 158. mál: #A stofnun þjóðgarðs um Heklu og nágrenni# þál., Flm. ÁHösk (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[17:55]

Flm. (Ármann Höskuldsson):

Herra forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að umhvrh. stofni nefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun þjóðgarðs um Heklu. Meðflutningsmenn mínir að tillögu þessari eru hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, Drífa Hjartardóttir, Ólafur Örn Haraldsson, Hjálmar Árnason og Margrét Frímannsdóttir.

Meginmarkmið þjóðgarðsins verði að kynna jarðsögu Heklu, staðhætti í nágrenni hennar og síðast en ekki síst, sögu sambúðar fjalls og þjóðar.

Herra forseti. Hvers vegna ætti að gera Heklu að þjóðgarði?

Hekla er þekktasta eldfjall Íslands, bæði heima og að heiman. Heklu er fyrst getið í ritum frá 13. öld, hinum fornu Lögmanns-, Konungs-, Flateyjar- og Gottskálksannálum. Í þessum annálum er getið hinnar fyrstu eldsuppkomu í Heklu eftir að áar okkar numu hér land. Hekla hafði ekki gosið í tæp 200 ár þegar gos hófst í henni 1104. Afleiðingar eldgossins voru miklar fyrir íslenskt mannlíf og lögðu marga bæi í Þjórsárdal og á heiðum í auðn. Fréttir til Evrópu bárust frá munknum Benedeit er orti kvæði um Heklu í kringum 1120 er hann var við hirð Maude drottningar á Englandi. Hann mun hafa verið fyrstur til að tengja Heklu og hreinsunareldinn saman. Hróður Heklu fór hratt um alla Evrópu og komust fræðimenn fljótt að þeirri niðurstöðu að Hekla mundi vera annar af tveimur megininngöngum í hið neðra ásamt Etnu á Sikiley. Herbert kapellán í Clairvaux og seinna erkibiskup á Sikiley jók enn frægð Heklu er hann bar saman Etnu og Heklu. Með leyfi herra forseta:

,,Hinn nafnfrægi eldketill á Sikiley sem kallaður er strompur vítis er að því er menn fullyrða eins og smáofn í samjöfnuði við þetta gífurlega víti.``

Þarna vísar hann til Heklu.

Ekki er að því að spyrja að þegar slíkar fréttir fóru að berast af seinni inngangnum í hreinsunareldinn komust fræðimenn í Evrópu að því að vistin í Heklu væri mun verri en sú er beið manna í Etnu. Má segja að hróðri Heklu hafi ekki verið skákað eftir þetta.

Það gat líka komið sér vel að eiga greiðan aðgang að hinu neðra er ófögnuði þurfti að koma fyrir. Samkvæmt Þjóðsögum Jóns Árnasonar kvað síra Magnús prófastur til Kirkjubæjarklausturs, Höfðabrekku-Jóku niður á eftirfarandi hátt, með leyfi herra forseta:

  • Heklugjá er heljarkrá.
  • Henni gusar eldur frá.
  • Stofuna þá ég stefni þér á,
  • stað skaltu engan betri fá.
  • Ekki er að því að spyrja að til hennar hefur ekki síðan spurst.

    Fyrstu eldfjallafræðilegar athuganir sem gerðar voru við Heklu og eru færðar í Flateyjarannál, eru á gosinu 1341, með leyfi herra forseta:

    ,,Menn fóru til fjallsins þar sem uppvarpið var og heyrðist þeim sem bjargi stóru væri kastað innan um fjallið. Þeim sýndust fuglar fljúga í eldinum, bæði smáir og stórir með ýmsum látum. Hugðu menn vera sálir.``

    Hér eru menn að sjálfsögu að lýsa því hvernig aska og gjall hendist upp úr gosgígnum með tilheyrandi sprengi\-drunum og notast við viðmið sem þeim eru tömust.

    Fyrir nágranna Heklu hefur það aldrei þótt gott er sú gamla tekur upp á að byrsta sig. Hraun hafa tekið af bæi og beitarland svo ekki verður aftur endurheimt og búpeningur spillst fyrir sakir flúoreitrunar. Síðan 1104 hefur Hekla gosið 17 sinnum smáum og stórum gosum. Öll eiga eldgosin það sammerkt að hefjast með miklu sprengigosi en breytast síðan yfir í hraungos. Hekla hefur því hlaðist upp úr ösku, gjalli og hraunum sem þekja hlíðar hennar og næsta nágrenni. Samtíma nýrri virkjanasögu þjóðarinnar og virkjun Búrfells hóf Hekla nýtt tímabil í sinni gossögu og hefur síðan þá gosið á um tíu ára fresti, sjálfsagt til þess að minna okkur mennina á að þrátt fyrir getu okkar og kunnáttu megum við okkar lítils fyrir mætti hennar, ókrýndrar drottningar íslenskra eldfjalla.

    En saga Heklu nær lengra aftur en nemur söguöld okkar Íslendinga því í nágrenni hennar finnast menjar eldgosa frá jökultíma sem og íslausum tíma fram til sögualdar. Þrjú eldgos skera sig þar úr og hafa verið nefnd af Sigurði heitnum Þórarinssyni prófessori, Hekla 3 um 2.900 ára gamalt, Hekla 4 um 5.000 ára gamalt og Hekla 5 um 7.000 ára gamalt. Öll þessi gos voru mikil sprengigos sem lögðu ösku yfir allt landið sem teppi væri. Raunar lögðu rannsóknir Sigurðar heitsins á gjóskulögum frá Heklu grunninn að nýrri fræðigrein innan eldfjallafræðinnar er nefnd hefur verið öskulagafræði. Með öskulagafræði geta menn síðan byggt upp gjóskulagatímatal fyrir áhrifasvæði eldfjalla sem nýtist fleiri fræðigreinum en eldfjallafræðinni. Nýlegar rannsóknir á norðanverðum Bretlandseyjum, studdar til að mynda af gjóskutímatali Heklu, sýna að Hekla hafði með gosinu fyrir tæpum 3.000 árum gríðarleg áhrif á heiðarbyggðir eyjanna.

    Herra forseti. Hekla er einstök á meðal jafningja. Hún telst til megineldstöðva og líkist meira erlendum eldkeilum hvað eldvirkni og kvikuframleiðslu snertir en hinum hefðbundnu íslensku eldfjöllum. En þrátt fyrir að líkjast í háttum erlendum systrum sínum er hún þeim frábrugðin að lögun og í raun eina eldkeilan í heiminum sem er hryggjarlaga. Það skýrist af því að fjallið gýs ávallt um norðaustur/suðvestur sprungu er liggur eftir því endilöngu en ekki hringlaga toppgíg eins og hefðbundnar eldkeilur. Því er Hekla séð úr norðri eða suðri eins og bátur á hvolfi en úr austri og vestri hefur hún hina fullkomnu lögun eldkeilu.

    Land í kringum Heklu er í stöðugri mótun. Ný hraun renna og brenna land svo illt er yfirferðar nema fuglinum fljúgandi. Frost og þíða vinna síðan á úfnum hraununum og aska seinni tíma gosa fellur yfir þau og fyllir gjótur. Þannig verða hraunin smátt og smátt fær öðrum en fuglum himins. Er hraunin hafa kólnað nemur í þeim land gróður, hið fyrsta gamburmosi en síðan blómplöntur og æðri gróður, er jarðvegur hefur í þeim myndast.

    Herra forseti. Hekla er því ekki aðeins eins og risavaxin kennslubók í eldfjallafræðum heldur og í fræðum lífsins og hvernig það nemur nýtt land.

    Um Heklu og hennar nánasta umhverfi liggur fjöldinn allur af vísindalegum greinargerðum, bókum, ljóðum og öðrum almennum ritum. Hekla hefur verið frá öndverðri 13. öld ástæða þess að menn hafa stungið niður penna til að skrá sögu hennar eða athafnir. Með upplýsingaöldinni jókst til muna fjöldi fræðilegra greina um eðli hennar og uppruna og er ekkert lát þar á enn í dag. Fróðleiksfúsum vil ég benda sérstaklega á bók Ferðafélags Íslands frá árinu 1995 sem dreift var í pósthólf þingmanna. Þar fer Árni Hjartarsson jarðfræðingur ítarlega yfir náttúrufar og sögu Heklu.

    Herra forseti. Af þessum stutta inngangi má ljóst vera að Hekla er meir en verðug þess að verða gerð að þjóðgarði okkar íslendinga. Hvað væri meira viðeigandi en að opnun þess þjóðgarðs yrði á því herrans ári 2004, á 900 ára afmæli ,,eldsuppkomu hinnar fyrstu í Heklufelli``, eins og segir í Konungsannál, og á þeim drottins degi 20 júní, en þann dag gengu þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson fyrstir manna á Heklutind árið 1750.

    Að lokum, herra forseti, vonast ég til þess að þingsályktunartillaga þessi fái farsæla afgreiðslu í þinginu og að henni verði vísað til hv. umhvn. Alþingis.