Stofnun þjóðgarðs um Heklu og nágrenni

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 18:03:58 (804)

2001-10-18 18:03:58# 127. lþ. 15.16 fundur 158. mál: #A stofnun þjóðgarðs um Heklu og nágrenni# þál., DrH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[18:03]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um stofnun þjóðgarðs um Heklu og nágrenni. Sem meðflutningsmaður vil ég leggja nokkur orð í belg. Hv. 1. flm. Ármann Höskuldsson hefur flutt hér afar fróðlega og vandaða ræðu sem hefur verið mjög ánægjulegt að hlusta á.

Markmiðið með stofnun þjóðgarða er m.a. að tryggja framvindu náttúrunnar eftir eigin lögmálum og gefa almenningi kost á að njóta náttúrunnar á viðkomandi svæði og læra að þekkja náttúruleg lögmál og ferli. Þjóðgarðar hafa í flestum tilfellum erlendis eflt ferðaþjónustu á viðkomandi svæðum. Sums staðar erlendis eru þjóðgarðar stórir atvinnuveitendur sem veita mörgum fjölþætta og sérhæfða atvinnu og geta þar af leiðandi gengt því hlutverki að vera vaxtarbroddur í byggðaþróun.

Það er spurning hvernig hægt er að samræma betur hagsmuni heimamanna og þeirra sem vilja stofna þjóðgarð, þ.e. ríkisins, en oft og tíðum hefur heimafólk talið stofnun þjóðgarðs vera ógn við tilveru sína þar sem yfirráð yfir viðkomandi svæði eru færð í hendur ríkisins. Því þarf að leggja áherslu á að mjög mikilvægt er að þjóðgörðum sé stjórnað í samráði og samstarfi við heimamenn.

Herra forseti. Eins og fram kemur í þáltill. er Hekla eitt þekktasta eldfjall á Íslandi og allt svæðið er einstakt. Hekla er merkilegt fjall sem er í sífelldri mótun. Sú sem hér stendur fylgist með fjallinu úr eldhúsglugganum sínum og hefur fylgst með hverju einasta gosi frá 1970. Það eru ekki allir sem búa við þau hlunnindi að hafa Heklu í bakgarðinum hjá sér. Reyndar hefur sveitarstjórn Rangárvallahrepps farið fram á að Hekla og svæðið í kringum Heklu verði friðlýst þannig að ég tel að það fari mjög vel á því að svæðið verði gert að þjóðgarði. Þá kæmi til betra skipulag á umferð ferðamanna við Heklu sem er töluvert mikil og síðast en ekki síst yrði komið í veg fyrir að vegur yrði lagður upp á Heklu og pósthús reist þar, eins og einn núv. hæstv. ráðherra hefur lagt til. (KolH: Framsóknarráðherra, er það ekki?) Jú, reyndar. Ég er alfarið á móti því. Umferð við Heklu er töluvert mikil og hún á ekki að vera þannig að hægt sé að aka rútu upp þar upp. Það er óvirðing við svo virðulegt fjall.

Meginmarkmið með stofnun þjóðgarðs er að kynna jarðsöguna og staðhætti í nágrenni hennar og sögu sambúðar fjalls og þjóðar.

Herra forseti. Mig langar til þess að vitna í ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, sem hann orti til herra Pauls Gaimards:

  • Þú stóðst á tindi Heklu hám
  • og horfðir yfir landið fríða,
  • þar sem um grænar grundir líða
  • skínandi ár að ægi blám;
  • en Loki bundinn beið í gjótum
  • bjargstuddum undir jökulrótum ---
  • þótti þér ekki Ísland þá
  • yfirbragðsmikið til að sjá?
  • Eins langar mig til að vitna í Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson, með leyfi forseta:

  • Beljandi foss við hamrabúann hjalar
  • á hengiflugi undir jökulrótum
  • þar sem að gullið geyma Frosti og Fjalar.
  • En hinum megin föstum standa fótum
  • blásvörtum feldi búin Tindafjöll
  • og grænu belti gyrð á dalamótum;
  • með hjálminn skyggnda, hvítri líkan mjöll,
  • horfa þau yfir heiðavötnin bláu,
  • sem falla niður fagran Rangárvöll;
  • þar sem að una byggðarbýlin smáu,
  • dreifð yfir blómguð tún og grænar grundir.
  • Við norður rísa Heklutindar háu.
  • Svell er á gnípu, eldur geisar undir
  • í ógnadjúpi, hörðum vafin dróma
  • ...
  • Herra forseti. Ég hef lokið tilvitnun minni.

    Hekla er sannarlega drottning allra eldfjalla og á það sannarlega skilið að vera sýnd sú virðing að vera gerð að þjóðgarði.