Átak til að lengja ferðaþjónustutímann

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 18:47:49 (810)

2001-10-18 18:47:49# 127. lþ. 15.9 fundur 139. mál: #A átak til að lengja ferðaþjónustutímann# þál., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[18:47]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Sú þáltill. sem hér er flutt hefur það markmið að auka ferðamannastraum utan þess tíma sem nefndur hefur verið aðalferðamannatíminn, þ.e. sumarið. Hér er verið að reyna, og það er markmið málsins, að efla ferðaþjónustu á þeim tíma sem eignir og tæki eru vannýtt og stuðla þannig að því að aðilar í þessum rekstri nái inn þeim dýrmætu tekjum sem hægt væri að ná á þessum tíma. Það er mergurinn málsins. Þessi tæki eru til staðar, eignirnar eru til staðar, hótelin og gistirými. Það er alveg hárrétt sem hv. 7. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, benti á í ræðu sinni áðan þegar hann nefndi þetta og jafnframt hv. 9. þm. Reykn., Sigríður Jóhannesdóttir. Þau bentu á að þarna væru menn að ná inn þessum dýrmætu tekjum á vannýttum tíma. Hér er um stórt mál að ræða sem hv. 2. þm. Vestf., Karl V. Matthíasson, flytur.

Það liggur fyrir samkvæmt skoðanakönnunum að 70% af þeim erlendu ferðamönnum sem hingað koma koma til þess að skoða landið, skoða náttúruna og það þýðir að hugur þeirra stendur út á landsbyggðina. Þessi tillaga stuðlar þannig að því að styrkja ferðaþjónustuna á landsbyggðinni. Miklar væntingar eru um stóraukinn ferðamannastraum til Íslands. Það var fyrst á síðasta ári sem erlendir ferðamenn voru fleiri en íbúar okkar góða lands, voru um 300 þúsund. Menn hafa verið að nefna háar tölur í þessu sambandi, 1.200 þúsund og jafnvel enn hærri tölur svo að veltur á milljónum. Því hlýtur maður að spyrja: Hvernig er landsbyggðin í stakk búin til þess að taka á móti þessum stóraukna fjölda? Það verður að gerast með því að ferðamennska utan hásumartímans sé efld. Ég mundi vilja sjá fleiri störf sem tengjast stjórn ferðamála vistuð á landsbyggðinni þannig að landsbyggðin nái að eflast en sé ekki að dragast saman eins og því miður hefur verið með okkar þjóð í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ef landsbyggðin eflist ekki þá náum við ekki þessum góða ávinningi, þá náum við ekki þessum miklu gjaldeyristekjum sem við eigum innan seilingar, eins og hv. 7. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, benti á í góðri ræðu sinni.