Átak til að lengja ferðaþjónustutímann

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 19:12:09 (818)

2001-10-18 19:12:09# 127. lþ. 15.9 fundur 139. mál: #A átak til að lengja ferðaþjónustutímann# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[19:12]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að leggja orð í belg þar sem ég er einn af meðflutningsmönnum þessarar þáltill. sem ég tel tímabæra. Það er orðið tímabært að við leggjum áherslu á að lengja ferðamannatímann. Það hafa aðrar þjóðir sem hafa miklar tekjur af ferðamennsku gert. Þær eru að lengja ferðamannatímann í báða enda og það þyrftum við auðvitað að gera.

Ég veit að atburðirnir 11. september í New York hafa gert það að verkum að áhugi fyrir ferðalögum erlendra ferðamanna, til landa eins og Íslands hefur aukist. Eftirspurnin hefur orðið mun meiri. Menn líta á þetta land sem öruggt, fallegt og hreint og vilja því koma hingað.

Auðvitað kostar þetta peninga en við höfum þó sett talsvert í að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland og ef við höldum ekki áfram og eflum markaðssetninguna og beinum henni á tímabil þar sem minni ferðamennska er þá erum við auðvitað að kasta á glæ fjármunum sem við höfum þegar sett í atvinnugreinina. Við höfum hér ýmsar fjárfestingar sem ber að nýta meiri hluta ársins. Við höfum margt sem fólk sækist eftir að skoða. Ég nefni sem dæmi að það er eftirsóknarvert fyrir þá sem ferðast að koma og sjá norðurljósin. Það er eitt af því sem menn sækjast eftir. Ég veit að í Indónesíu hafa menn t.d. markaðssett Balí sem stað þar sem maður ætti að sjá sólarlagið. Í starfi mínu sem leiðsögumaður áður fyrr fór ég í þrígang með hópa til að skoða sólarlagið á Balí, sem er dýr ferðamannastaður. Auðvitað getum við gert eins með norðurljósin. Við getum boðið fólki að skoða norðurljósin og markaðssett þau á sama hátt.

Menn fara um grísku eyjarnar til að skoða eldfjöll og eldfjallasvæði og kaupa dýrum dómum hraunmola, t.d. rauðamöl sem við höfum hér í öllum vegum í Grímsnesinu. Fólk er að kaupa þetta í krukkum í gríska Eyjahafinu vegna þess að því finnst þetta svo merkilegt. Það er því ýmislegt hægt að gera til þess að draga að ferðamenn og læra af öðrum þjóðum.

Hér var minnst á að efla þyrfti ferðamennskuna út á land og hún mætti ekki aðeins vera hér á Reykjavíkursvæðinu. Það er alveg rétt og þá þarf auðvitað eitthvað til að draga ferðamenn að. Gott dæmi um slíkt sem er hvalasafnið á Húsavík sem er alveg einstakt safn. Það er gott dæmi um safn sem gæti dregið til sín ferðamenn. Við þekkjum að í Evrópu hafa víða verið upp sértæk söfn, t.d. söfn um kaupmenn og ferðir þeirra um Evrópu. Þangað kemur fjöldi manns, bara vegna þess að þar eru þessi sértæku söfn. Söfn um heilbrigðisþjónustu frá því á miðöldum. Ég skoðaði eitt slíkt safn í sumar í Frakklandi sem var mjög merkilegt. Ýmislegt svona getum við gert.

Mjög góð hugmynd sem nýlega kom fram er að kynna handritin eða konungsbók Eddukvæða sérstaklega. Þó að handritið sé ekki merkilegt útlits og þó að í því séu engar myndir þá er auðvitað hægt að vinna mjög skemmtilegt og áhugavert safn í kringum það handrit. Ég er ekki frá því að hægt sé að fá hingað fjölda ferðamanna og þetta geti orðið okkar Móna Lísa eins og menn hafa bent á.

Fleira er mjög merkilegt á Íslandi, t.d. fornminjar eins og hér í miðborginni í Reykjavík svo sem rústir fyrsta bæjarins sem var byggður hér, fyrsta landnámsbæjarins. Auðvitað verðum við að passa upp á það sérkenni og megum ekki byggja þar yfir heldur verðum við að halda því til haga og sýna það ferðamönnum.

Varðandi söfnin sem ég nefndi áðan þá eru þau ekki aðeins til að draga að erlenda ferðamenn heldur einnig innlenda ferðamenn, utan hins hefðbundna ferðamannatíma. Það eigum við auðvitað að leggja mikla áherslu á. Það gera aðrar þjóðir. Þær leggja mikla áherslu á að fá landsmenn sjálfa til að ferðast utan hins hefðbundna ferðamannatíma.

Annað held ég að gæti líka orðið til þess að draga að ferðamenn til Íslands. Það er nálægðin við Grænland og möguleikarnir á því að geta farið um heimskautasvæðin til Grænlands héðan, sem ég veit að heillar marga erlenda ferðamenn. Þeir telja það kost að geta farið á svona sérstæðar slóðir, ferðast um Ísland og síðan til Grænlands í sömu ferðinni.

Jarðhiti og jöklar. Þessi fyrirbæri geta menn auðvitað skoðað hvenær sem er ársins og ætti ekki að vera síðra að koma hingað að vetrarlagi til að upplifa þá náttúru. Svona mætti auðvitað lengi telja.

Eitt langar mig svo að nefna áður en ég lýk máli mínu. Ég held að það sé vel til fundið að efla menningartengda ferðaþjónustu eins og verið hefur til umræðu undanfarið. Þá ætti jafnframt að byggja á frumkvæði fólksins á hverjum stað, ekki að menn ákveði þetta miðstýrt t.d. frá Reykjavík eða ákveðnum stofnunum heldur láta fólkinu á hverjum stað eftir að byggja upp þessa menningartengdu ferðaþjónustu. Það hefur gefið góða raun í öðrum löndum og ég held að við getum litið til reynslunnar þar í þessum efnum.

Herra forseti. Ég ætla að vona að þessi þáltill. nái fram að ganga og að nefnd verði sett í að vinna að því að lengja ferðaþjónustutímann á Íslandi.