Átak til að lengja ferðaþjónustutímann

Fimmtudaginn 18. október 2001, kl. 19:19:10 (819)

2001-10-18 19:19:10# 127. lþ. 15.9 fundur 139. mál: #A átak til að lengja ferðaþjónustutímann# þál., Flm. KVM
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 127. lþ.

[19:19]

Flm. (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim sem tekið hafa þátt í þessum umræðum og sérstaklega hinar jákvæðu móttökur sem þessi þáltill. hefur fengið.

Það hefur verið rætt eilítið um það í þessari umræðu að landsbyggðin hafi orðið hornreka í ferðaþjónustunni undanfarin ár. Það er alveg rétt, enda segir í þessari þáltill.:

,,Sérstaklega skal tekið tillit til landsbyggðarinnar í þessu máli þar sem ferðaþjónusta er mun minni yfir vetrartímann en hún gæti orðið, miðað við þá aðstöðu og möguleika sem fyrir hendi eru.``

Á þetta er lögð áhersla í þáltill.

Ég vil segja, herra forseti, að mín tilfinning fyrir ferðamálum á Íslandi er sú að það gætu orðið vatnaskil í henni. Það sem verður gert á næstu missirum í ferðaþjónustu getur haft mikil áhrif á það hvernig henni muni reiða af á næstu árum, hvort hún muni eflast sem sjálfstæð atvinnugrein eða hvort hún verður áfram hjá mörgum sem hliðargrein með annarri atvinnu.

Það sem verið er að leggja áherslu á með þessu er að ferðaþjónustan verði efld og styrkt með kynningarátaki á Íslandi þannig að hún verði örugg atvinnugrein þar sem eru mörg ársstörf.

Segja má að hótelin á Íslandi hafi ekki fjármagn til að standa í miklum auglýsingum á erlendri grund. Það er mjög dýrt og kostnaðarsamt.

Innanlandsflugið á undir högg að sækja og því fleiri sem ferðamenn eru því betur verður það náttúrlega nýtt og gefur því meiri tekjur. Síðan vitum við hver staðan er hjá Flugleiðum og ekki bara Flugleiðum heldur flugfélögum um allan heim. Þess vegna getum við ekki ætlast til þess að það fyrirtæki muni standa í miklum fjárfestingum til að markaðssetja landið. Því er nauðsynlegt að hrinda úr vör markvissu átaki til að lengja ferðaþjónustutíma og efla ferðaþjónustuna og snúa vörn í sókn. Ég er sannfærður um það, herra forseti. Ég mæli með því að þessari þáltill. verði vísað til samgn. Ég er sannfærður um að hún muni fá mikla umfjöllun í samgn. einmitt vegna þess ástands sem blasir við okkur núna og þeirra hræringa sem eiga sér stað í ferðaþjónustunni, ekki bara á Íslandi heldur víða annars staðar.

Sagt hefur verið að samfylkingarmenn komi sífellt með tillögur sem geri kröfur um fjáraustur en ekki neitt eigi að koma á móti. Vissulega kemur hér fram tillaga sem gerir ráð fyrir því að lagðir séu fram fjármunir. En ef þessir fjármunir verða lagðir fram munu tekjur koma á móti, mun meiri tekjur en settar verða í þetta. (Gripið fram í: Það er rétt.) Þetta er eitt það besta atvinnumál sem hefur verið lagt fram að mínu viti og er hið besta mál.

Herra forseti. Vegna þess að menn hafa farið hér með ljóð langar mig að ljúka máli mínu með nokkrum vísuorðum úr kvæði Huldu, með leyfi forseta:

  • Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
  • svo langt frá heimsins vígaslóð.
  • Geym, Drottinn, okkar dýra land
  • er duna jarðarstríð.