Ráðstefna um loftslagsbreytingar

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 13:49:11 (829)

2001-10-30 13:49:11# 127. lþ. 16.95 fundur 85#B ráðstefna um loftslagsbreytingar# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Nú er að hefjast fundur aðildarríkja að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í Marrakesh í Marokkó.

Fyrir nokkru síðan lýsti þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þeirri skoðun sinni að Alþingi bæri að senda fulltrúa á vettvang enda er um að ræða eitt brýnasta umhverfismál okkar tíma. Umhvrn. virtist sömu skoðunar því formlega var spurst fyrir um fyrirætlanir Alþingis í þessu efni, af hálfu ráðuneytisins. Forseti Alþingis svaraði í nafni forsn. að ekki stæði til að Alþingi sendi fulltrúa á ráðstefnuna.

Þess skal getið að Árni Steinar Jóhannsson, varaforseti þingsins, bókaði mótmæli gegn þessari ákvörðun. Þegar neikvæð afstaða stjórnar Alþingis lá fyrir var sú ákvörðun tekin í þingflokki okkar að þess yrði engu að síður freistað að senda fulltrúa þingflokksins til Marrakesh á kostnað þingflokksins sjálfs en að því tilskildu að sá fulltrúi nyti réttinda sem þingmaður hliðstætt því sem gerist almennt um þingmenn á slíkum ráðstefnum. Þingflokkurinn sneri sér þá til forseta Alþingis til að fá staðfestingu á því að fulltrúi þingflokksins gæti farið í nafni Alþingis en þinginu að kostnaðarlausu. Einnig þessu var hafnað.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs mótmælir harðlega þessum vinnubrögðum og hvetur jafnframt til þess að Alþingi endurskoði afstöðu sína til þátttöku í alþjóðasamstarfi.

Fimm fulltrúar fara til Marrakesh frá Íslandi. Það er ekki nema sjálfsagt að ráðherrar og embættismenn sem hafa það verkefni að fylgjast með þessu brýna hagsmunamáli sæki þennan mikilvæga fund. Hitt er fráleitt að fulltrúum þjóðþinganna sem setja lögin sé haldið fyrir utan hann.