Ráðstefna um loftslagsbreytingar

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 13:51:00 (830)

2001-10-30 13:51:00# 127. lþ. 16.95 fundur 85#B ráðstefna um loftslagsbreytingar# (aths. um störf þingsins), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil af þessu tilefni taka fram að hinn 24. september fékk ég bréf frá ráðuneytisstjóra umhvrn. sem lýkur með þessum hætti:

,,Með bréfi þessu vill ráðuneytið gefa Alþingi kost á því að senda fulltrúa á aðildarríkjaþingið. Viðkomandi þingmenn fengju aðild að íslensku sendinefndinni en allur kostnaður við hugsanlega þátttöku félli á Alþingi. Þar sem tilkynna þarf skrifstofu loftslagssamningsins um samsetningu sendinefndarinnar með góðum fyrirvara óskar ráðuneytið eftir svari eigi síðar en 5. október nk.``

Ég lét ráðuneytið að sjálfsögðu vita að ef Alþingi vill taka þátt í alþjóðlegu samstarfi þarf það ekki á aðstoð ráðuneyta að halda við að senda þangað þingmenn eða sendinefndir heldur tekur slíkar ákvarðanir sjálft. Ég skil satt að segja ekki --- ég get sett það innan sviga --- hvernig ráðuneytisstjóra dettur í hug að senda mér bréf með þvílíku efni.

Ég ritaði formanni þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Ögmundi Jónassyni, bréf hinn 19. okt. 2001, svohljóðandi:

,,Hinn 24. september barst Alþingi bréf frá umhverfisráðuneyti þar sem Alþingi var gefinn kostur á að fá aðild að sendinefnd Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh í Marokkó 29. október nk. Forsætisnefnd samþykkti á fundi sínum 8. október að hafna þessu boði enda hefur umhverfisnefnd ekki tekið málið upp við forsætisnefnd. Árni Steinar Jóhannsson óskaði bókunar á fundi forsætisnefndar þess efnis að hann teldi að leita hefði átt allra leiða til að senda þingmannasendinefnd á ráðstefnuna. Af þessum sökum er ekki hægt að verða við þeirri beiðni að einstakir þingmenn sitji ráðstefnuna sem fulltrúar Alþingis.``

Og það er afstaða mín að ef þingnefndir óska eftir því að senda fulltrúa á ráðstefnur erlendis taki þær það upp við forsn. Þá kemur að því að ákveða með hvaða hætti slíkar sendinefndir eru skipaðar en einstakir þingmenn geta ekki útnefnt sjálfa sig sem sérstaka fulltrúa Alþingis á einstökum ráðstefnum úti um heim jafnvel þó að þeir borgi sjálfir undir sig.