Ráðstefna um loftslagsbreytingar

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 13:53:54 (831)

2001-10-30 13:53:54# 127. lþ. 16.95 fundur 85#B ráðstefna um loftslagsbreytingar# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[13:53]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Aðalatriði þessa máls er ekki afstaða umhvrn. eða hæstv. umhvrh. Sú afstaða var fullkomlega eðlileg. Óeðlileg var hins vegar afstaða og vinnubrögð stjórnar Alþingis.

Loftslagsmál eru eitt stærsta umhverfismál samtímans og alþjóðasamfélagið leitar allra leiða til að bregðast við. Eftir umhverfisráðstefnuna í Buenos Aires árið 1998 var um það rætt í umhvn. Alþingis að eðlilegt væri að þingið legði meiri rækt við að fylgjast með þróun mála á þessu sviði og sendi fulltrúa Alþingis á vettvang. Slíkt væri í samræmi við vinnubrögð annarra þjóðþinga og sem dæmi má nefna að á ráðstefnuna í Marrakesh sendir finnska þingið þrjá þingmenn og Norðmenn senda fimm þingmenn á kostnað Stórþingsins. Frá Íslandi fer umhvrh. og sveit embættismanna en enginn fulltrúi Alþingis.

Minna má á að væntanlega kemur til kasta Alþingis innan tíðar að staðfesta Kyoto-bókunina og taka í framhaldi af því margar ákvarðanir sem lúta að loftslagsmálum. Íslensk stjórnvöld virðast hafa skilning á mikilvægi málsins enda fara fimm fulltrúar þriggja ráðuneyta til fundarins í Marrakesh auk umhvrh. Íslenskum þingmönnum er hins vegar meinað að sækja ráðstefnuna í nafni þingsins.

Þessu er harðlega mótmælt en jafnframt hvatt til þess að þingið endurskoði afstöðu sína til þátttöku þingmanna í mikilvægri stefnumótun á alþjóðavettvangi.