Rekstur Ríkisútvarpsins

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 14:30:20 (838)

2001-10-30 14:30:20# 127. lþ. 16.9 fundur 7. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[14:30]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi auglýsingamarkaðinn og auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins þá vil ég benda á að auglýsingatekjur eru mjög drjúgur hluti af tekjum Ríkisútvarpsins. Ef við ætlum að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði þá stöndum við frammi fyrir tveimur valkostum: Að hækka afnotagjöld, streymið til Ríkisútvarpsins úr ríkissjóði af skattpeningum, eða að skera niður starfsemina. Þetta eru þeir valkostir sem við stöndum þá frammi fyrir. Ég er því ekki sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni hvað þetta snertir þótt eðlilegt sé að skoða þetta mál eins og öll önnur að sjálfsögðu.

Hitt vil ég einnig nefna að þær raddir hafa heyrst úr heimi auglýsingafyrirtækjanna að þau telji þetta ekki góðan kost. Þetta mundi veikja starfsgrundvöll þeirra. Þetta gæti verið til skamms tíma orðið til hagsbóta fyrir ýmsar frjálsar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, sem svo eru nefndar, en til lengri tíma er litið óttast menn að þetta yrði engum til framdráttar, hvorki auglýsingafyrirtækjunum né hinum stöðvunum.