Rekstur Ríkisútvarpsins

Þriðjudaginn 30. október 2001, kl. 14:36:07 (841)

2001-10-30 14:36:07# 127. lþ. 16.9 fundur 7. mál: #A rekstur Ríkisútvarpsins# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 127. lþ.

[14:36]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Umræður um útvarp og sjónvarp hafa á stundum verið fyrirferðarmiklar hér á Alþingi. Ég minnist þess sérstaklega þegar ég var formaður menntmn. neðri deildar og barðist fyrir því að útvarps- og sjónvarpsrekstur yrði gefinn frjáls. Mig minnir að þá hafi svo vikum skipti verið haldnir daglegir fundir í nefndinni og stóðu oft marga tíma því að það þurfti að ræða það nákvæmlega og gera sér grein fyrir þeim afleiðingum og þeirri hættu sem því fylgdi að aðrir en ríkið rækju hér útvarp.

Svo skrýtið sem það er hefur niðurstaðan orðið sú að enginn þeirra sem greiddi atkvæði á móti frjálsum útvarpsrekstri á sínum tíma hefur flutt frv. um það hér á Alþingi að rétt væri að ríkið sæi hér eitt um útvarpsrekstur á nýjan leik. Slíkar raddir heyrast ekki lengur.

Hér hefur hv. 18. þm. Reykv., Sverrir Hermannsson, lagt fram þáltill. sem aðrir vinstri menn sem eiga sæti hér á Alþingi taka undir, þar sem því er algjörlega hafnað að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag. Nú er það svo að það er mjög flókið og seinvirkt fyrir fyrirtæki --- þó stofnun sé kölluð --- að starfa samkvæmt fjárlögum. Hver einasta fjárfesting sem ráðast þarf í þarf að vera ákveðin innan stofnunarinnar ári áður en fjárlög taka gildi. Við getum tekið sem dæmi að þegar um er að ræða framkvæmdir og ákvarðanir Ríkisútvarpsins á næsta ári þá yrði slík ósk eða beiðni frá stofnuninni að hafa legið fyrir í janúarmánuði á þessu ári og ganga síðan í gegnum menntmrn., fjmrn., Alþingi og þar fram eftir götunum þangað til að síðustu að fallist yrði á slíka fjárfestingu.

Það er auðvitað augljóst að þessi langa þrautaganga veldur því að Ríkisútvarpið er seint í svifum. Það getur ekki gengið, sem verið er að reyna að gera að skóna í þessum texta, að hægt sé að leyfa þessari einu ríkisstofnun, Ríkisútvarpinu, að vera viðbragðsfljótari til ákvarðana sem varða fjármál en aðrar opinberar stofnanir. Vitaskuld verður Ríkisútvarpið að vinna samkvæmt fjárlögum eins og aðrar stofnanir. (Gripið fram í: Eins og Alþingi.) Eins og Alþingi. Með þessum hætti er gefið í skyn að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru.

Það eru mörg ár síðan ég lýsti þeirri skoðun minni að ég vildi láta breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, einfaldlega vegna þessa ágalla. Það var líka vegna hins, að ég hafði vonir bundnar við að Ríkisútvarpið gæti, þegar svo væri komið, orðið víðsýnna í ýmsum ákvörðunum sínum varðandi efnisval, bæði í fréttum og eins í afþreyingu eða í menningarlegum efnum. Einnig væri líklegra að Ríkisútvarpið tæki meira tillit til þeirra sem vilja njóta þjónustunnar og skiptir þá ekki máli hvort við erum að tala um landshluta aðra en Reykjavík.

Þannig háttar t.d. um morgundagskrá útvarpsins á Akureyri. Á hana hlustuðu tvo daga í viku, samkvæmt skoðanakönnunum, 50% þeirra íbúa sem búa á svæðinu frá Húsavík til Langaness, og 25% íbúanna alla fimm daga vikunnar. Samt sem áður kaus Ríkisútvarpið að bregðast þannig við erfiðleikum í rekstri að leggja þessa þjónustu niður, þó mér skiljist að nú eigi að taka hana upp á nýjan leik. Þetta sýnir glögglega kæruleysi þeirra sem þar ráða ríkjum gagnvart því fólki sem býr á þessu landsvæði. Ekki kostaði svo mikla fjármuni að halda úti þessari þjónustu. Við sjáum á þessu hvaða tryggingu landsbyggðin hefur fyrir því að tillit sé til hennar tekið í opinberum stofnunum sem er að öllu leyti stjórnað héðan af höfuðborgarsvæðinu. Af þeim sökum má segja að það komi ekki á óvart að þingmenn Reykvíkinga skuli sérstaklega standa að þessu máli.

Ég vil í annan stað benda á að víða um land hafa móttökuskilyrði, bæði útvarps og sjónvarps, verið erfið. Þannig hefur það verið á sömu stöðunum svo árum og áratugum skiptir. Ég reyndi meðan ég var samgrh. að koma á samstarfi milli Landssímans og Ríkisútvarpsins um dreifinguna og tókst ekki þó í það væri sett svokölluð sáttanefnd. Við vitum nú hvernig gengur með sáttanefndirnar.

Ég sé að sáttanefnd verður hér á dagskrá í sambandi við stefnuna í sjávarútvegsmálum síðar í þessari viku en ég skil ekki af hverju formenn stjórnarandstöðuflokkanna flytja ekki þáltill. um sáttanefnd í efnahagsmálum. Það væri ekki ónýtt ef hægt væri að koma öllum stjórnmálaflokkum alls staðar ofan í sama grautarpottinn þannig að enginn munur verði þar á.

En vonandi verður það nú samt svo enn um hríð að stjórnmálaflokkarnir reyni að halda sínum málum fram, hafa sínar skoðanir og gera sér nokkra grein fyrir því hvar raunverulegur vilji þeirra stendur til uppbyggingar þjóðfélagsins og hvernig einstakir þættir eigi að vinna saman. Ég er þeirrar skoðunar, og tel óhjákvæmilegt að það komi fram hér, að það verði að íhuga mjög rækilega hvort ekki sé rétt að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag í eigu ríkisins. Ég tel að það verði að reyna að meta kosti þess og galla. Það liggur fyrir að á síðustu mánuðum hafa þar verið teknar ákvarðanir sem benda til þess að þeir sem búa úti á landi geti ekki treyst á Ríkisútvarpið eins og það er rekið.